Þarf allt suður?

Þarf allt suður?
 
Fleiri og fleiri velja bálför við andlát, fyrir því geta verið nokkrar ástæður en hár kostnaður hefur verið nefndur í því sambandi. Á vefsíðu Útfararstofu kirkjugarðanna má sjá dæmi um kostnað við útfarir. Ef valin er látlaus útför eða bálför er kostnaðurinn um 292 þúsund krónur, bálför án athafnar kostar um 181 þúsund krónur og að endingu er tekið til dæmi um hefðbundna útför og þá er kostnaðurinn við hana metinn um 595 þúsund krónur. Margir kjósa einnig bálför vegna umhverfissjónarmiða og að fólk vilji athöfnina látlausa og bálför sé þá liður í þeirri nálgun. Nú eru um 40% sem kjósa bálfarir og hefur þeim fjölgað umtalsvert á liðnum árum sem það gera. Í umfjöllun Morgunblaðsins frá 19. janúar 2019 má sjá að árið 2018 voru bálfarir 813 eða um 37,5% af tölu látinna það sama ár og líkur leiddar að því að árið 2050 verði hlutfall bálfara orðið um 70%. Bálstofan í Fossvogi er eina bálstofan í landinu, starfsemin í Fossvogi er rekin á undanþágu, bæði frá Vinnueftirlitinu og Heilbrigðiseftirlitinu. Sagt var frá því í fjölmiðlum seint á síðasta ári að hætta væri á því að brennsluofnarnir gætu fallið saman enda eru þeir rúmlega 70 ára og brýn þörf á að endurnýja þá ef ekki á að fara illa. Bent hefur verið á að það stefni í algert óefni, viðvaranir hafa verið gefnar en enn þá hefur ekki verið brugðist við eða með öðrum orðum: reynt hefur verið að vekja athygli á alvarlegri stöðu án árangurs. Getur verið að endirinn verði að aðstandendur verði að flytja látinn ástvin til útlanda til þess að uppfylla hinstu ósk viðkomandi?
 

Eins og staðan er núna stendur bálför ekki öllum landsmönnum til boða nema þá með ærnum flutningskostnaði og þess vegna kemur það ekki á óvart að sjá í gögnum að talsverður munur er á því eftir búsetu hvort fólk velur hefðbundna útför eða bálför, fleiri búsettir á höfuðborgarsvæðinu kjósa bálför. Það skal þó sagt að íbúar landsbyggðar þurfa ekki að greiða fyrir bálförina sjálfa en það breytir ekki því að eina bálstofa landsins er í Reykjavík og það liggur því töluverður aukakostnaður í því að flytja kistu þangað annars staðar frá af landinu. Það er í höndum aðstandenda að flytja kistuna eða fá annan aðila til þess. Ef kista fer í flug frá Akureyri til Reykjavíkur kostar það um 45 þúsund krónur og svo bætist við kostnaður við flutning frá flugvelli til líkhúss.

Stjórnvöld verða að hlusta á aðvaranir, setja verður upp viðunandi og löglega aðstöðu til bálfara á fleiri en einum stað á landinu. Það þarf ekki allt suður.

 

Höfundur: Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 6. ágúst, 2020