Þjóðarhöllin GAJA

Eftir sigurleik strákanna okkarí  Svíþjóð boðaði þjóðarhallarþríeykið til blaðamannafundar þann 16. janúar. Þar var gerð grein fyrir áætlunum þess efnis að ný þjóðarhöll, 19 þúsund fermetrar að stærð, yrði hönnuð, reist og tilbúin til notkunar fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Nánar tiltekið fyrir árslok 2025.

Þarna mættu ráðherrarnir tveir, forsætis- og menntamálaráðherra og borgarstjórinn fráfarandi, sami hópur og hittist nokkrum dögum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og skrifaði undir viljayfirlýsingu þessa efnis. Í báðum tilvikum var fjármálaráðherra skilinn eftir heima.

Höllin skal kosta 15 milljarða. Fimmtán þúsund milljónir. Og hún skal rísa hratt. Hreinlega ótrúlega hratt.

Þríeykið telur sig sennilega hafa góða reynslu af framkvæmdum undir stífri tímapressu, þar sem hannað er um leið og byggt er.

Reynslan af uppbyggingu á umferðareyjunni við Hringbraut kemur eflaust að einhverjum notum. Það er þó ekki víst. Braggablúsinn gæti skilað sínu. Ef einhvern lærdóm mátti draga af uppbyggingu byggðasamlagsins Sorpu á jarðgerðarstöðinni GAJU í Álfsnesi, þá var hann sá að í upphafi skyldi endinn skoða.

Mikil framúrkeyrsla við byggingu GAJU og margþætt vandræði í rekstri sem síðar hafa komið fram eru að miklu leyti tilkomin vegna þess að menn settu á sig óþarfa pressu sem bæði keyrði kostnað úr hófi fram og varð þess valdandi að verkefnið var ekki hugsað og hannað til enda.

Með þessum varnaðarorðum er ég ekki að leggjast gegn framkvæmdum við nýja þjóðarhöll. Ég er fyrst og fremst að hvetja til þess að varlega verði farið með opinbera fjármuni og að þetta verði ekki enn ein aðgerðin sem fer stórkostlega fram úr áætlun, fyrst og fremst vegna þess að þeir sem að koma ætla sér of skamman tíma til verksins.

Til að setja tímarammann í samhengi, þá væri knappt að fjölskylda sem festi sér lóð undir einbýlishús, væru slíkar fáanlegar í Reykjavík, gæti flutt inn fyrir lok þess tíma sem ráðherrar annarra flokka en Sjálfstæðisflokks ætla sér til að ná niðurstöðu um kostnaðarskiptingu, klára alla þætti hönnunar, bjóða út, ljúka kæruferli útboða, rýna og samræma, gera verksamninga og já, byggja höllina og kaupa inn í hana innréttingar og öll þau flóknu kerfi sem fylgja. Er enn verið að afhenda bjartsýnisverðlaun Bröste?

Verst er svo hvað peningakraninn úr ríkissjóði hefur verið illa varinn undanfarið. Þar blasa til dæmis við ótrúlegar ákvarðanir sem hafa verið teknar í tengslum við yfirvofandi framkvæmdir vegna Borgarlínu. Skattgreiðendur eiga að því er virðist fáa vini þegar kemur að sameiginlegum útgjöldum ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 25. janúar, 2023.