Þora, geta og gera - ráðherrar og þingmenn?

Töluvert rennerí hefur verið af ráðherrum og þingmönnum í að virða fyrir sér eitt best varðveitta leyndarmál Suðurlands undanfarin misseri með hinum ýmsu aðilum sem láta sig leyndarmálið varða. Leyndarmálið mikla er mannvirki sem hefur staðið óklárað frá því að bygging þess hófst á áttunda áratug síðustu aldar.

Sögubrot

Á meðan að framkvæmdum leyndarmálsins stóð, lögðu ungir drengir oft leið sína á byggingarsvæðið þó afgirt væri með gaddavírsgirðingum, enda spennandi leikvöllur fyrir litla gaura þess tíma ásamt nýbyggingu Kaupfélags Árnesinga. Á byggingarsvæðið var lagt er smiðirnir voru farnir heim í faðm fjölskyldunnar, í messu, að taka slátur eða stunda annan þarfan heimilisiðnað. Á meðan voru eltingaleikir á vinnupöllum stundaðir af miklu kappi frekar en forsjá af litlum gaurum, hangandi í járnagrindum, stökkvandi á milli hæða vinnupallanna og oní pússningasand. Já, það voru leikirnir sem iðkaðir voru þá, að gera það sem ekki mátti gera með þeim efnum sem til staðar voru á þeim tíma - fyrir tíma Atari, Sinclair Spectrum, Pac-man, DOOM og Eve online. Sem betur fer slasaði sig nú enginn alvarlega á leikvellinum forboðna en skrámur, kúlur á enni og blóðdropar voru allnokkrir eftir ærsl virkra daga kvöldanna eða í lok hvíldardagana heilögu, sunnudaga. Síðar er mannvirkið var orðið fokhelt um miðjan níunda áratuginn nýttist kjallari þess stærri og eldri gaurum með ýmsum gagnlegum hætti. Kjallarann nýttu stóru gaurarnir meðal annars fyrir afkastamikla verksmiðju til framleiðslu vatns, oft kenndu við lífið sjálft og geymslu fyrir dót sem þeim hafði hlotnast eftir allskyns dellumeikerí.

Forverinn

Forveri þessa mannvirkis, Selfossbíó var rifið um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Með niðurrifi þess hvarf vettvangur sem í áratugi hafði nýst til leik- og bíósýninga, dansleikja og ýmissa samkoma fyrir unga jafnt sem aldna. Oft á tíðum var mikið fjör á bíósýningunum - ljósin slökkt, smjatt, pískur, lykt og popp fauk um dimman salinn ásamt bossablossabröndurum með tilheyrandi hlátrasköllum. Bönnuðu sýningarnar kölluðu svo á það að litlu gaurarnir klifruðu uppá þak til að horfa á aldurstakmarkandi bíómyndir í gegnum stórt loftræsiop er þar var statt og rúmaði að minnsta kosti þrjá litla gaura samtímis. Loftræsiopið var góður staður til að horfa á bíómynd og ígildi VIP-stúku ef starfsfólkið gleymdi að kveikja á viftunni, sem því miður fyrir litlu gaurana gerðist aldrei of oft. Niðurrif Selfossbíós orsakaði einnig að Leikfélag Selfoss varð húsnæðislaust um tíma en félagið fékk svo inni í gamla iðnskólahúsnæðinu hvar æfingar fóru fram meðal annars á verkinu „Nakinn maður og annar í kjólfötum“ eftir Dario Fo, undir leikstjórn Erlings Gíslasonar heitins. Skemmst er frá því að segja að best varðveitta leyndarmál Suðurlands er nakið enn, en þráir að komast í kjólföt.

Opinberunin

Margir íbúar hafa lifað í voninni að eitthvað myndi fara að gerast í málefnum best varðveitta leyndarmáls Suðurlands í „nánustu framtíð“. Nánasta framtíðin er í dag orðin í það minnsta vel ríflega þriggja áratuga löng. Fjölmargir íbúar sáu á eftir fyrrnefndu Selfossbíó er það var rifið, enda þjónaði það að hluta til því hlutverki að vera menningarhús. „Menningarhús“ er einmitt lykilorðið á lausn gátunnar. „Best varðveitta leyndarmál Suðurlands“, eins og forsætisráðherra fannst því best líst, er Menningarhús Sunnlendinga sem stendur enn ófullgert við Eyraveginn á Selfossi. Húsið sem er um 1.000m2 að gólffleti hefur nú staðið fokhelt í á fjórða áratug þrátt fyrir fögur og síendurtekin kosningaloforð sem mörg hver eru orðin að klassíker í kosningabaráttum staðbundinna stjórnmálaflokka síðustu áratugi. Í gegnum tíðina hafa einnig hinir ýmsu aðilar stofnað til safnanna og ýmissa hópa til að mynda þrýsting á að hafist yrði handa við að fullgera mannvirkið. Óskað hefur verið eftir fjármagni til fullgerðar þess til Selfossbæjar síðar Svf. Árborgar og einnig til ríkisvaldsins. Ófáir fundirnir, formlegir sem óformlegir hafa einnig verið haldnir með hagsmunaaðilum um málefni hússins án þess að til fundanna væri einnig boðið blaðamönnum, ljósmyndurum og básúnuleikara.

Tími efnda er upprunninn

Nú þegar uppbygging íþróttamannvirkja í Svf. Árborg og annara nauðsynlegra mannvirkja eru komin á góðan rekspöl þá er engum blöðum um það að fletta að brýnasta samfélagslega verkefnið nú, er að fullgera Menningarhúsið á Selfossi. Fullgert Menningarhúsið, háborg samfélagsins mun öðru fremur styrkja samheldni og sjálfsmynd íbúa auk þess að blása þrótti í menningarlíf Suðurlandsundirlendisins alls. Forsætisráðherra hefur nú gefið því undir fótinn að eitthvað færi að gerast í málefnum hússins bráðlega. Heimamenn eru því bjartsýnir, eftir yfirlýsingar forsætisráðherra að það gerist nú í haust er fjárlaganefnd kemur saman og að þar verði gert ráð fyrir Menningarhúsi Suðurlands á samþykkt fjárlög næsta árs. Frumdrög og kostnaðaráætlun vegna fullnaðarfrágangs Menningarhússins hefur nú verið lögð fram og afhent ráðuneytisstjóra Mennta- og m e n n i n g ar m á l ar á ð u n e y t i s i n s . Forsendur áætlunargerðarinnar eins og segir í samantekt hennar, eru þær að gert er ráð fyrir að húsið verði hannað fyrir „náttúrulegan hljómburð“ og þannig miðað við að gera hljóðvist sem besta fyrir algengustu notkun. Kostnaðaráætlunin sem lögð hefur verið fram svo ljúka megi byggingu Menningarhússins reiknast 472 mkr, brunabótamat hússins í því ástandi sem það er, er 553 mkr.. Brunabótamatið endurspeglar nálægt þann kostnað sem fer í að endurbyggja húseign. Það má því áætla að Svf. Árborg hafi nú þegar lagt til ríflega 550 mkr. í Menningarhúsið og nú er komið að ríkisvaldinu að leggja sitt af mörkum til verkefnisins. Ríkisvaldið hefur gefið fordæmi fyrir því hve hlutdeild þess er í kostnaði slíkrar byggingar og má í því samhengi nefna byggingu Hofs á Akureyri og Hörpunnar í Reykjavík. Hvorutveggja glæsilegar byggingar staðsettar í Höfuðborg Íslands og Höfuðstað Norðurlands. Nú vantar fé til lúkningar Menningarhúss í Höfuðstað Suðurlands, Selfossi. Þorið þið, getið og gerið - kæru ráðherrar og þingmenn, það sem hver og einn ykkar hefur lofað okkur, að veita myndarlegu fjármagni til lúkningar Menningarhússins okkar í fjárlögum nú í haust svo koma megi því í blómlega menningarstarfsemi sem allra fyrst?

 

Höfundur: 

Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, varaformaður bæjarráðs og formaður Eigna- og veitunefndar í Svf. Árborg

Greinin birtist í héraðsfréttablaðinu Suðra þann 5. september, 2019