Tilkynning frá Miðflokknum

Fréttatilkynning

Afstaða Miðflokksins til tveggja mála sem verið hafa í umræðunni í dag.

Frumvarp um kynrænt sjálfræði(ódæmigerð kyneinkenni) hefur að mati Miðflokksins ekki fengið næga umræðu.

Í umræðuna er verið að blanda alls óskyldum hlutum. Annarsvegar þegar börn fæðast intersex og hins vegar börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni þar sem ekki leikur vafi á kyni barns. Í umræðunni er mannréttindahugtakið vægast sagt frjálslega túlkað. Miðflokkurinn álítur það skyldu sína að standa vörð um hagsmuni barna sem fæðast með kvilla eða líkamslíti og leyfa foreldrum í samráði við lækna að taka ákvarðanir um það sem barni er fyrir bestu. Líkamslíti getur haft alvarleg áhrif á andlega líðan barna og er það skoðun Miðflokksins að slíkar aðgerðir eigi að leyfa.

 

Miðflokkurinn mun því leggja fram eftirfarandi breytingatillögu:

Breytingartillaga við frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019 (ódæmigerð kyneinkenni).

Frá minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar.

1. Á eftir 4. mgr. 4. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir 2. mgr. er forsjáraðilum barns undir 12 ára aldri heimilt að taka ákvörðun um varanlegar breytingar á þvagfærum og/eða kynfærum barns ef fyrir liggur mat læknis á viðeigandi sérfræðisviði að aðgerð eða önnur meðferð er til þess fallin að auka lífsgæði barnsins.

 

Miðflokkurinn hefur lagt fram þingsályktun um ráðstöfun útvarpsgjalds.

Það er skoðun Miðflokksins að vægi RÚV á fjölmiðlamarkaði sé of mikið, staða einkarekinna fjölmiðla sé slæm, og við því verði að bregðast.

Það er skoðun flutningsmanna þessarar tillögu að til þess að Ríkisútvarpið geti rækt skyldu sína þurfi að vera rými fyrir aðra öfluga fjölmiðla á markaðinum. Hér er átt við fjölmiðla sem geti veitt Ríkisútvarpinu aðhald og um leið aukið fjölbreytileika þjóðfélagsumræðunnar og eflt frekar skilning almennings á henni. Í 37. gr. tilskipunar Evrópuráðsins 2007/65/EB kemur fram að fjölmiðlalæsi snúist um að gera neytendum kleift að nýta sér fjölmiðla á öruggan og skilvirkan hátt. Áhrif fjölmiðla á samfélagið eru svo viðamikil að fjölmiðlalæsi neytenda er ein af grundvallarforsendum þess að þeir geti talist fullgildir og virkir borgarar í lýðræðisríki. Að veita einum ríkisreknum miðli lungann úr fjölmiðlastyrkjum hins opinbera vinnur gegn þessum markmiðum.

Þingsályktunartillöguna má sjá hér.