Treystum foreldrum

Ég ásamt félögum mínum í þingflokki Miðflokksins hef lagt fram á Alþingi breytingartillögu við frumvarp barnamálaráðherra um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að foreldrum verði tryggður sameiginlegur réttur til tólf mánaða fæðingarorlofs sem þeir geti skipt með sér á 24 mánaða tímabili. Þessi breytingartillaga er lögð fram með það að markmiði að hún henti best barni og foreldrum þess.

Við lestur frumvarps barnamálaráðherra vakna ótal álitamál, til að mynda er sagt í kaflanum um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar að nú séu 20 ár liðin frá því að núverandi lög um fæðingarorlof tóku gildi og því sé rétt að laga fæðingarorlofskerfið að þeirri miklu þróun sem hefur orðið í samfélaginu, þar á meðal í jafnréttismálum og stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Fæðingar- og foreldraorlof er vissulega vinnumarkaðsúrræði en á sama tíma togast á sjónarmið foreldra um hvað hentar þeim best og barninu hverju sinni. Það er beinlínis ákveðið í þessu frumvarpi að skikka hvort foreldri til þess að taka sex mánuði innan knapps tímaramma en þeim sé leyfilegt að skipta einum mánuði á milli sín, það sagt vera til þess að koma til móts við aðstæður fjölskyldna. Það er erfitt að sjá hvernig þetta gagnast jafnrétti og sérstaklega hvernig þetta gagnast stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Aðstæður foreldra eru mismunandi og hvað gerist ef annað foreldrið hefur ekki tök á að taka sína sex mánuði; falla þeir þá niður, fær barnið þá aðeins að njóta samvista annars foreldrisins? Foreldrar vilja vera með börnum sínum, það sem birtist í frumvarpi barnamálaráðherra mun ekki gera annað en skapa sektarkennd og jafnvel skömm hjá því foreldri sem einhverra hluta vegna getur ekki nýtt sér fæðingarorlofshlutann sem því er ætlað. Eðlilegast er að barnið fái þessa 12 mánuði sem foreldrar skipta á milli sín eins og hentar best miðað við aðstæður fjölskyldunnar. Þetta frumvarp sem er hér til umræðu mætti einnig taka betur tillit til aðstæðna þeirra foreldra sem búa hvort í sínum landshlutanum. Ekki er hugað að aðstæðum foreldra sem ekki fá pláss fyrir barn sitt á leikskóla. Það er eins og þetta frumvarp miði aðeins að því að foreldri eða foreldrar eignist aðeins eitt barn og alls ekki annað barn eða það þriðja á lífsleiðinni. Það getur nefnilega vel verið að það henti foreldrum á einhverjum tímapunkti að skipta með sér orlofinu en svo þegar næsta barn fæðist henti það best að annað foreldrið taki allt orlofið og með því þriðja að þá verði skiptingin enn önnur. Eða með öðrum orðum: aðstæður eru mismunandi.

Það er einnig undarlegt í frumvarpinu að tala um leikskóla sem dagvistun eins og gert er: „Lenging á rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði er liður í því að minnka það bil sem er á milli fæðingarorlofsréttar foreldra og þangað til barni býðst dagvistun á leikskóla.“ Það er afar sérstakt að sjá þetta orðalag þar sem leikskólinn er skilgreindur sem fyrsta skólastigið og það starf sem þar fer fram á ekkert skylt við dagvistun, það hefði mátt skilja þessa setningu í frumvarpi um fæðingarog foreldraorlof fyrir 20 árum en ekki núna. Það verður heldur ekki litið fram hjá því að í meiri hluta umsagna komu fram ábendingar um mikilvægi þess að foreldrar hefðu meira svigrúm til að ákveða sjálfir hvernig skiptingu fæðingarorlofsins sín á milli væri háttað, það voru rúmlega 250 umsagnir sem bárust í samráðsgáttina, þar á meðal töluverður fjöldi umsagna frá konum. Geðverndarfélag Íslands sagði í umsögn sinni að með frumvarpi barnamálaráðherra væri gengið lengra í ósveigjanleika og þvingunarúrræðum en í eldra frumvarpi og að ekki hefði verið samráð við fagfólk um þarfir ungra barna og fjölskyldna. Landlæknisembættið sendi einnig inn umsögn sem sagði m.a. að aðrar Norðurlandaþjóðir hefðu mun meiri sveigjanleika í sínum fæðingar- og foreldraorlofslögum en það sem boðað væri hér á landi með framlagningu þessa frumvarps.

Það er mikilvægt að stjórnvöld geri allt sem þau geta til þess að foreldrar geti nýtt það fæðingar- og foreldraorlof sem um er að ræða, að stjórnvöld setji foreldra ekki í þá afleitu stöðu að þurfa að velja og hafna. Treystum foreldrum Eftir Önnu Kolbrúnu Árnadóttur » Treystum foreldrum og tryggjum sameiginlegan rétt þeirra til tólf mánaða fæðingarorlofs sem þeir geti skipt með sér á 24 mánaða tímabili.

 

Höfundur:  Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 1. desember, 2020