„Uppfærsla“ sáttmála á forsendum Betri samgangna ohf.

Í liðinni viku var sagt frá því á vef innviðaráðuneytisins að ríkið og sex sveitarfélög sem standa að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hefðu ákveðið að hefja undirbúning að því að uppfæra sáttmálann og gera viðauka við hann. Þarna strax setti óhug að undirrituðum, það skal uppfæra sáttmálann, en ekki endurskoða.

Jafnframt er sagt frá því í fréttinni að verkáætlun um uppfærsluna hafi verið samþykkt á fundi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innviðaráðherra með bæjarstjórum sveitarfélaganna, borgarstjóra og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í fréttinni segir jafnframt að gert sé ráð fyrir að hægt verði að undirrita viðauka við samgöngusáttmálann í sumar, nánar tiltekið er það áætlað í lok júní, sbr. minnisblað frá innviðaráðuneyti og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dags. 9. mars síðastliðinn sem sent var til stýrihóps samgöngusáttmálans.

Það er auðvitað reginhneyksli ef ætlunin er að ganga frá uppfærslu samgöngusáttmálans, eftir allt sem á undan er gegnið, á meðan þing er ekki að störfum. Það er ekki víst að þeir sem koma að Betri samgöngum ohf. gætu með skýrari hætti sent fjárveitingarvaldinu fingurinn, en lengi skal manninn reyna.

Enn verra er að samkvæmt þeim minnisblöðum sem nú liggja fyrir er ætlunin fyrst og fremst að uppfæra tölur og tímasetningar og bæta í það sem ríkissjóður fær að borga, en ekki endurskoða sáttmálann.

Það versta í minnisblaðinu er þó að mati undirritaðs að allar uppfærslur, allt mat sem á að leggja á verkefni sáttmálans, allt endurmat er varðar fjármögnun og svo framvegis á að vinna á forsendum Betri samgangna ohf., apparatsins sem nú þegar hefur tapað tiltrú að miklu leyti vegna þess hvernig mál hafa gengið fram á þeim tæpu fjórum árum síðan sáttmálinn var undirritaður.

Hinn 13. mars, fjórum dögum eftir að áðurnefnt minnisblað innviðaráðuneytis og SSH var sent stýrihópi samgöngusáttmálans, sendi innviðaráðherra minnisblað til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis þar sem niðurstaðan var að „vegna alls framangreinds (samantekt um það sem aflaga hefur farið) er það mat ráðuneytisins að tímabært sé að aðilar samgöngusáttmálans rýni hann í sameiningu með það að markmiði að uppfæra tíma- og kostnaðaráætlanir“, ekkert um tímaramma vinnunnar.

Af hverju ákvað innviðaráðherra að tala svona óljóst við umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis? Er ætlunin að halda þessari vinnu frá Alþingi? Fjárveitingarvaldinu? Sennilega. Eflaust telur borgarstjóri innviðaráðherra ekki fullplataðan í málinu.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 22. mars, 2023.