Uppgreiðslugjald íbúðalánasjóðs

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, beindi fyrirspurn sinni til efnahags- og fjármálaráðherra á Alþingi í dag.  Fyr­ir­spurn Ólafs snéri m.a. að því hvort áfrýjandi muni leita eftir flýtimeðferð málsins til að stytta tímann sem þessarar réttaróvissu gætir og hvort að þeir lán­tak­end­ur sem tóku lán á hærri vöxt­um gegnt því að hafa ekki upp­greiðslu­gjald á sín­um lán­um hjá Íbúðalána­sjóði myndu fá end­ur­greiðslu byggða á þeim vaxtamun sem þar skapaðist ef Lands­rétt­ staðfestir dóm­inn.

Fyrri ræða Ólafs var svohljóðandi: 

"Dómur héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember síðastliðinn um ólögmæti uppgreiðslugjalds Íbúðalánasjóðs hefur vakið mikla athygli. Þúsundir einstaklinga búa nú við mikla réttaróvissu eftir áfrýjun dómsins til Landsréttar. Getur hæstvirtur ráðherra staðfest að áfrýjandi muni leita eftir flýtimeðferð málsins til að stytta tímann sem þessarar réttaróvissu gætir? Þeir sem hafa verið læstir í heljargreipum í láni Íbúðalánasjóðs fyrir tilstilli hins ofurháa uppgreiðslugjalds, sem nemur t.d. 16% af uppgreiðsluvirði lánsins sem dómsmálið snerist um, verða það áfram þangað til fullnaðarniðurstaða fæst fyrir dómstólum nema stjórnvöld ákveði að grípa til annarra aðgerða. Dómurinn sýnist vel ígrundaður og rökstuddur, dómurinn er fjölskipaður með tveimur sérfróðum meðdómurum og hefur að því leyti annað vægi en dómur eins héraðsdómara í máli frá 2014. Getur ráðherra tekið undir að yfirvofandi skaðabótamál vegna tjóns sökum innilokunar í lánum Íbúðalánasjóðs ef betri kjör buðust á markaði gefi tilefni til að íhuga sáttaleið í málinu, þó þannig að öll ólögmæt uppgreiðslugjöld yrðu endurgreidd undantekningarlaust?

Staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms, áformar ráðherra þá að komið verði til móts við þá sem völdu að greiða hærri vexti til að sleppa við uppgreiðsluþóknanir með hliðsjón af því að það val tók mið af þeirri fölsku forsendu að uppgreiðsluþóknun væri lögmæt? Til dæmis, hæstv. ráðherra, með því að endurgreiða þeim vaxtamismuninn svo að þeir verði jafnsettir öðrum með tilliti til jafnræðisreglu?"

Í seinni ræðu sinni sagði Ólafur:  

"Ég hef nokkrar viðbótarspurningar til hæstvirts ráðherra. Hvaða fyrningarfrestir eiga að dómi ráðherra við gagnvart höfuðstól, gagnvart vöxtum og gagnvart uppgreiðslugjaldi, fari svo að dómur héraðsdóms verði staðfestur? Ég leyfi mér að benda á í þessu sambandi að fyrningarfrestir laga taka til lögmætra krafna, ekki ólögmætra krafna. Getur ráðherra staðfest að með yfirlýsingu ráðuneytisins sé í raun viðurkennt að allir lántakendur sjóðsins geti leitað endurkröfu innan a.m.k. fjögurra ára frá 4. desember 2020, óháð því hvenær þeir greiddu lánið upp?

Þá vil ég leita eftir afstöðu hæstv. ráðherra til þess að í stað eðlilegrar endurfjármögnunar og áhættustýringar hafi sjóðurinn kosið að velta fjárhagsvanda sínum yfir á herðar lántakenda með kröfu um að þeir greiddu hluta vaxta af uppgreiddum lánum áratugi fram í tímann, eins og kemur fram í dómnum. Er hæstv. ráðherra sáttur við þessa framgöngu sjóðsins? Mér heyrist reyndar svo ekki vera.

Ég ítreka að lokum spurningu mína: Hvernig áformar ráðherra að koma til móts við þær þúsundir sem sitja uppi með fjárhagstjón eftir viðskipti við Íbúðalánasjóð sem héraðsdómur hefur dæmt ólögmæt? Sér ráðherra enga aðra leið en að bíða og vona að Hæstiréttur muni á endanum skera stjórnvöld úr snörunni?"

Umfjöllun um málið birtist á vef Morgunblaðsins í dag (sjá hér)Einnig er grein á RÚV um málið (sjá hér).

Ræður Ólafs og svör ráðherra í þingsal má sjá hér