Útigangsfólk á viðsjárverðum tímum

Nú þegar covid-19 veiran ríður yfir heiminn og setur tilveru okkar mannanna í þá stöðu að óttinn og óöryggið gera vart við sig.  Landlæknir, sóttvarnalæknir og almannavarnir hafa staðið í stafni og þorri fólks treystir þeim ráðleggingum og viðbrögðum sem þau leggja til.  Að sama skapi hafa stjórnvöld tekið á málum í samræmi við það sem líklegast er til að þjóðfélagið komist stóráfalla laust í gegnum þann tíma sem sérfræðingarnir áætla að verði hvað erfiðastur.  Síðan verður tíminn að leiða það í ljós hverju fram vindur og hvernig lífið mun líta út hinu megin við þennan þokukennda tíma sem við nú erum að glíma við.

Það er þó einn samfélagsins sem kemur strax upp í hugann, hópur sem þokan límir sig við og hefur gert lengi og mun gera áfram, þar á ég við útigangsfólk. Þessi hópur fólks fer ekki heim til sín í sóttkví. Stór hluti þessa hóps er fólk sem bíður eftir innlögn á meðferðastöðvar þar sem biðlistarnir hafa verið mældir í kílómetrum undanfarin ár og ekkert virðist vera að breytast í þeim efnum. Vegna ástandsins, covid-19 hefur þeim stöðum sem útigangsfólk hefur fengið mat og húsaskjól fækkað, verið lokað.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að stærstum hluta er útigangsfólk fíknsjúklingar þó það sé ekki algilt.  Ég hef kynnst fólki sem hefur verið „á götunni“ sumt hvert fékk hjálpina og lifa alsgáðu lífi í dag, sumir látnir, aðrir eru enn á götunni.  Enginn af þeim ætlaði sér að koma sér í þessa stöðu.  Þessir borgarar hugsuðu sem börn eða unglingar líkt og við flest „hvað ætla ég að verða þegar ég verð stór“. Margir voru orðnir fjölskyldufeður eða mæður og vildu sér og sínum hamingju í lífinu.  En einhverja hluta vegna komust einstaklingar í þá stöðu að svefn undir berum himni, sníkjur, vændi, og þjófnaður til að draga fram lífið fyrir mat, fíkniefnum og áfengi svo eitthvað er nefnt er staðreynd í þeirra lífi.

Af hverju er ég að minnast á þetta upp núna.  Jú það er þessi tímabundna þoka sem við erum að þreifa okkur í gegnum og síðan dimma þokan sem útigangsfólk hefur glímt við meðan sólin skín á aðra, sú þoka er oft það dimm og þykk að stutt er í vonleysið.  Ég hvet okkur núna að huga að þessum þjóðfélagshóp, einmitt núna.  Það er engin vonlaus, þó kannski það líti út fyrir það og viðkomandi einstaklingur virðist vera í aðstæðum þar sem lítið er hægt að gera.  Okkur ber skylda til að hjálpa okkar minnstu bræðrum og systrum sem eiga ekki í nein hús að venda.  Heima sóttkví getur ekki gengið ef þú á hvergi heima.

 

Höfundur:  Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins