Vegna stöðunnar sem þjóðin stendur frammi fyrir

Covid-19 veiran berst á milli landa og setur tilveru okkar í búning sem ekki var á áætlun og er reyndar fordæmalaust. Ferðalög, samkomur, heimsóknir, handabönd, knús og kossar verða allt í einu varasöm vegna smithættu. Hlutabréf á fjármálamörkuðum falla, vöruflutningar á milli landa tefjast, flugáætlanir og ferðaþjónustan er komin í uppnám.

Auðvitað er þetta tímabundið ástand en fordæmalaust og mun og hefur þegar haft mikil áhrif. Almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld gefa reglulega út leiðbeiningar til að ná utan um smitleiðir og hægja útbreiðslu veirunnar.

Gestakomur ferðaþjónustuaðila í atvinnuveganefnd síðustu daga hafa verið upplýsandi um stöðuna og horfurnar fram undan. Þar kemur fram hjá öllum, áhyggjur og mikil óvissa. Það sem ferðaþjónustan kallar eftir frá yfirvöldum eru mótvægisaðgerðir svo að fyrirtækjum verði kleift að komast í gegnum mesta skaflinn og geti tekið við ferðamönnum þegar þetta ástand er yfirstaðið. Það væri landi og þjóð mikill skellur ef ferðaþjónustufyrirtæki í stórum stíl hyrfu af sjónarsviðinu í þessari krísu og væru ekki til staðar þegar aukning ferðamanna til landsins hefst á ný, því það mun gerast og þá þarf þjónustan að vera fyrir hendi.

Mikill uppgangur hefur verið í ferðamennsku hérlendis undanfarin ár og komst í 2,3 milljónir ferðamanna árið 2018. Í fyrra 2019 fór fjöldinn niður í rúmar 2 milljónir og fyrir árið 2020 voru spár að gera ráð fyrir 10% samdrætti. Þessi spá er núna í ljósi aðstæðna vegna covid-19 veirunnar búin að margfaldast og stefnir í tugmilljarða króna samdrátt með tilheyrandi tapi á gjaldeyristekjum.

Þegar þetta er skrifað er ný afstaðinn blaðamannfundur sem ríkistjórnin boðaði til vegna mótvægisaðgerða sem í raun skilaði auðu eða svo gott sem og urðu það mikil vonbrigði en kom ekki á óvart.

Í flestum löndum er sterk krafa um að stjórnvöld leggi línurnar um hvernig tekist skal á við vandann. Róttækar aðgerðir til að fást við ástandið frá heilbrigðislegu tilliti og efnahagslegu.

Allt íslenskt atvinnulíf mun finna fyrir þessu ástandi til sjávar og sveita. Nú þarf landbúnaður að fá þá upplyftingu frá stjórnvöldum, að við sem þjóð getum varið eigin matvæla- og fæðuöryggi. Þó þessi krísa sem nú er í gangi væri ekki þá er nauðsynlegt að þjóðin sé sjálfbær í matvælaframleiðslu. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru mörg hver illa í stakk búin að fást við ástand sem þetta og er ég þá að tala um fyrirtæki almennt. Það hlýtur að vera ákall þjóðarinnar að stjórnvöld séu leiðandi og sýni þann styrk sem nauðsynlegur er á tímum sem þessum.

 

Höfundur: Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins í NV kjördæmi

Greinin birtist í Skessuhorni þann 11. mars, 2020