"Við verðum að horfa á heildarmyndina"

Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fóru fram þann 1. október.  Bergþór Ólason tók til máls í annari umferð.

 

Virðulegur forseti, góðir landsmenn.

Um mitt ár 2013 tók við ríkisstjórn undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ríkisstjórnin tók við eftir kjörtímabil ótalmargra slæmra ákvarðana sem oft virtust helst ætlaðar til að ná höggi á gamla pólitíska andstæðinga, ná fram meinlokumálum forystumanna ríkisstjórnarinnar og því markmiði að plata þjóðina inn í Evrópusambandið. Sem betur fer tókst að bjarga í horn hvað mörg þessara mála varðaði en þær efnahagslegu þrengingar sem ómarkvissar aðgerðir orsökuðu, aðgerðir sem urðu í raun til þess að þrengingar íslensks atvinnulífs drógust á langinn umfram það sem hefði getað orðið, ættu nú að vera okkur áminning um hversu miklu máli skiptir að hjálpa atvinnulífinu fljótt af stað aftur.

Að þessu sögðu sjáum við nú uppvakninga í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, uppvakninga eins og stofnun miðhálendisþjóðgarðs, frumvarp um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga. Fyrirkomulagi leigubifreiðaakstur skal snúið á haus í miðjum heimsfaraldri og svo má áfram telja. Það var athyglisvert að hlusta á formann Framsóknarflokksins fara hér mikinn áðan þar sem hann hélt því fram að nú væri keyrð stefna samkvæmt sýn Framsóknarflokksins. Það skýrir auðvitað ýmislegt og það er áhugavert að formaðurinn gangist við því með þessum hætti að yfirvofandi hrina gjaldþrota, fjöldaatvinnuleysi, lokun landsins, ólæsi drengja, kröpp kjör eldri borgara og svo mætti lengi telja sé stefna sem keyrð er áfram undir gunnfána Framsóknarflokksins.

Virðulegur forseti. Mikið hefur verið látið með gríðarlegan vöxt í opinberum fjárfestingum en hver er raunveruleikinn? Í Hagsjá Landsbankans, sem birt var í upphafi vikunnar, er bent á að 14% samdráttur er í opinberri fjárfestingu fyrstu sex mánuði ársins borið saman við sama tíma í fyrra. Hér fer ekki saman hljóð og mynd. Upplýsingaóreiðunefnd ríkisstjórnarinnar ætti að skoða þetta sérstaklega. Miðflokkurinn hefur þegar kynnt tillögur sem snúa að því að lækka tekjuskatt einstaklinga. Það er lykilatriðið að fjölga þeim krónum sem fólk hefur eftir af sjálfsaflafé sínu. Ríkisstjórnin verður að hætta að hugsa þannig að peningar sem verða eftir í vösum einstaklinga og á reikningum fyrirtækja séu tapað fé. Við eigum að lækka tryggingagjaldið hið snarasta og þá er ég að tala um alvörulækkun en ekki bara nokkrar krónur. Við verðum að gæta aðhalds í rekstri hins opinbera. Það er ekki boðlegt að bíða með þær aðgerðir þar til atvinnulífið verður að fótum fram komið vegna hárra skatta og kostnaðar við flókið regluverk. Við megum ekki stýra íslensku efnahagslífi inn í slíkar þrengingar að skásta „pickup“-lína fólks í makaleit verði: Ég er opinber starfsmaður.

Kæru landsmenn. Hafandi nú nefnt fólk í makaleit er ekki annað hægt en að nefna frumvarp félags- og barnamálaráðherra þar sem enn er bætt í forsjárhyggjuna hvað skiptingu réttar til fæðingarorlofs varðar. Við í Miðflokknum teljum að sá réttur eigi að vera til kominn vegna barnsins og fyrir barnið. Þess vegna leggjum við til að þar sem foreldrar koma sér saman um slíkt verði foreldrunum sjálfum falið að skipta á milli sín þeim mánuðum sem til ráðstöfunar eru. Foreldrarnir eru líklegastir til að vita hvað er barninu fyrir bestu.

Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Ekki er annað hægt en að segja nokkur orð um Covid-faraldurinn og viðbrögð tengd veirunni. Áhrifin eru gríðarleg. Heil atvinnugrein berst nú fyrir lífi sínu og margar aðrar verða fyrir gríðarþungu höggi sem er annaðhvort afleitt vegna stöðu ferðaþjónustunnar eða til komið vegna veirunnar og ákvarðana stjórnvalda hér á Íslandi og í þeim löndum sem við eigum mest samskipti og viðskipti við. Hægt er að líta á samfélagið sem eitt risastórt stjórnborð með þúsund mælum. Undanfarna mánuði hefur verið einblínt á einn mæli, Covid-19 tölfræðimælinn, en ótalmargir aðrir og mikilvægir látnir liggja á milli hluta. Það er staða sem ekki er hægt að búa við öllu lengur. Á daglegum upplýsingafundum þríeykisins væri eflaust hollt fyrir umræðuna að fá gesti sem færu m.a. yfir tölur um vanskil heimila, fjölda sjálfsvíga, aukna sókn í þjónustu geðlækna og sálfræðinga, þróun áfengisneyslu landsmanna, fjölda gjaldþrota, atvinnuleysistölur og svo mætti áfram telja. Við verðum að horfa á heildarmyndina.

Kæru landsmenn. Stjórnmálamenn þurfa að taka dýpri umræðu um hvert skuli stefna og hvernig best sé að komast þangað. Það er okkur ekki samboðið að útvista ábyrgðinni á þessum þáttum. Það er þinginu ekki samboðið að láta það viðgangast að meiri háttar ákvarðanir séu teknar mánuðum saman án efnislegrar umræðu hér í þinginu, þar sem m.a. ýmsum borgaralegum réttindum er ýtt til hliðar.

Góðar stundir.

 

Hér má sjá upptöku af ræðu Bergþórs á vef Alþingis