Vilji þjóðar

Nú þegar styttist í að Alþingi Íslendinga afgreiði svokallaðann 3ja orkupakka Evrópusambandsins, er rétt að fara yfir nokkur atriði honum tengd.  Engum vafa er undirorpið að afgreiðsla pakkans er í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar.  Afstaða almennings hefur komið fram í nokkrum könnunum og er andstaða við orkupakkann ótvíræð.  Tveir stjórnmálaflokkar hafa lýst yfir andstöðu við afgreiðslu orkupakkans og hafa þannig staðið með þjóðinni.  Flokkur fólksins tók þátt í andófi í þinginu nú í vor í rúma tvo klukkutíma og er það þakkarvert.  Miðflokkurinn hefur borið uppi andóf gegn afgreiðslu orkupakkans og hefur leitt fram gild rök gegn samþykki pakkans á Alþingi.  Miðflokkurinn hefur einnig staðið fyrir opnum fjölsóttum fundum um orkupakkann til að almenningur geti kynnt sér þau gögn og rök sem safnað hefur verið saman.  Það er í þágu almennings að mál jafn flókin og OP3 sem hafa svo mikil áhrif til langrar framtíðar séu kynnt almenningi.  Mjög hefur skort á þátttöku fjölmiðla í að kynna orkupakkamálið með skipulögðum hætti þó ekki megi setja alla undir sama ljós.  Mjög athyglisvert er að af þeim 16 milljónum sem utanríkisráðherra hefur eytt í undirbúning málsins hefur ekki ein króna farið i kynningu ef marka má svar ráðherrans við þinglegri fyrirspurn undirritaðs.  Rúmar átta milljónir fóru í skýrslu og hingaðkomu prof. dr. Baudenbachers, sem hingað kom í vor í þeim tilgangi einum að því er virðist að hræða Íslendinga til fylgilags við orkupakkann.  Rétt tæpar átta milljónir fóru í innlenda lögfræðiaðstoð, þar af um helmingur til tveggja fræðimanna sem ítrekað hefur verið gert af hálfu ráðuneytisins að skýra niðurstöður sínar til að gera þær ráðherra þóknanlegri.  Ein og hálf milljón fór síðan til starfandi héraðsdómara og dósents.  Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við greinargerð dómarans/dósentsins, né þáttöku hans í umræðu um OP3.  Það hefur hins vegar sérstaklega til tekið af stuðningsfólki OP3 að annar héraðsdómari tók til máls og færði fram rík rök fyrir að hafna pakkanum.  Það gerði hann ótilknúður og án þóknunar, af áhuga fyrir málefninu og til að bæta í umræðuna um málið.  Einu laun þessa héraðsdómara hafa fólgist í köpuryrðum og þöggunartilburðum þeirra sem samþykkja vilja OP3 sama hvað.  Það er í þágu almennings að mál jafn flókin og OP3 sem hafa svo mikil áhrif til langrar framtíðar séu kynnt með markvissum og hlutlægum hætti.  Mjög hefur skort á þátttöku fjölmiðla í að kynna orkupakkamálið með skipulögðum hætti þó ekki megi setja alla undir sama ljós.  Einkum hefur ríkisfréttastofan brugðist hlutverki sínu.  Það er m.a. eftirtektarvert að fyrsta umfjöllun ríkisfréttastofunnar um fjöldasamtökin Orkuna okkar sem andæft hefur OP3 misserum saman fór í loftið fyrir viku.  Ein umfjöllun að sjálfsögðu, síðan ekki söguna meir.  Það er í sjálfu sér athugunarefni að RÚV bregðist þannig lýðræðislegri og lögmæltri skyldu sinni.  Önnur spurning er til hvers við rekum slíkan fjölmiðil fyrir almannafé, ef hann efnir ekki lögmæltar skyldur sínar.  Samkvæmt nýlegri könnun eru tveir þriðju hlutar þjóðarinnar á móti OP3.  Þrátt fyrir það eru þeir sem taka svari þessa meirihluta sakaðir um andlýðræðislega tilburði.  Hér snýr eitthvað á haus.  Nú í lok ágúst mun fara fram lokaumræðan um OP3.  Þar verða rök fyrir að hafna pakkanum bæði nýfengin og áður framkomin sett fram af hálfu Miðflokksmanna.  Ég hvet almenning, kjósendur til að fylgjast vel með umræðunni.  Ég hvet almenning til að fylgjast með hvernig kjörnir fulltrúar stjórnarflokkanna svara ákalli kjósenda sinna um að hafna OP3 og senda hann Sameiginlegu EES nefndinni.  Ég hvet almenning til að gaumgæfa hvernig þingmenn stjórnarliðsins fara á svig við samþykktir stofnana flokka sinna.  Ég hvet almenning að síðustu til að fylgjast vel með því hverjir standa vörð um vilja þjóðarinnar í orkupakkamálinu.

 

Höfundur:  Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 27. ágúst, 2019