Villuljós hjá vinstri grænum

Mörg hin síðari ár hefur stjórnmálaumræðan snúist æ meira um umhverfismál. Mannkynið hefur dreift sér um alla jarðarkringluna og áhrif af tilvist okkar snerta umhverfi og lífríki í öllum kimum hnattarins og allt of oft með neikvæðum hætti.

Margir hafa áhyggjur af að losun gróðurhúsalofttegunda leiði til hækkunar á hitastigi svo umhverfi og aðstæður muni breytast til hins verra um veröldina. Tekist er á um hvaða leiðir séu best til þess fallnar að draga úr óæskilegum áhrifum okkar á umhverfið og svo er einnig hérlendis.

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og aukning hennar leiðir til þess að við efnum ekki alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Útlit er fyrir að við þurfum að greiða himinháar sektir. Aðgerðir stjórnvalda til að hindra þetta eru ómarkvissar og í smáskömmtum. Vinstri menn, sem ráða ferðinni í þessum málaflokki, klæða lausnirnar í hugsjónabúning og huga lítt að raunhæfum aðgerðum sem gætu borið skjótan árangur. Fjárveitingar eru auknar til gagnslítilla og óprófaðra aðgerða og oft án fullnægjandi rökstuðnings um árangur.

Nýskógrækt er árangursríkasta aðferð sem þekkist til kolefnisbindingar. Margar þjóðir hafa eflt skógrækt í þeim tilgangi. Þrátt fyrir þetta hefur þeim mikla samdrætti í skógrækt sem varð hér á landi eftir hrun ekki verið snúið til betri vegar. Ráðherrann kennir fyrri stjórnum um, en hefst ekki að sjálfur. Sú örlitla aukning sem hefur orðið er mestmegnis í birki sem þó bindur margfalt minna en öflugustu trjátegundir sem reynsla er komin á hér á landi. Þess í stað er siglt hraðbyri í að greiða milljarða í loftslagssektir, sem enginn veit hvert renna.

Þá er að minnast á sorpmálin. Langsamlega mest af okkar úrgangi hefur verið urðað, þrátt fyrir að valda margvíslegri mengun, þar á meðal útblæstri metangass sem er ein allra skaðlegasta gróðurhúsalofttegundin. Aðrar þjóðir hafa í auknum mæli brennt sitt sorp í sorpbrennslum, sem hafa orðið æ umhverfisvænni og framleitt að auki orku. Hér skella menn við skollaeyrum og aðhafast ekki.

Ríkisstjórnin hyggst leysa umhverfismálin mestmegnis með skattlagningu. Þetta er haldreipið þegar menn sjá ekki lausnir á vandanum eða þora ekki að taka ákvarðanir. Um það er kolefnisgjaldið gott dæmi. Síðustu þrjú ár hefur gjaldið verið hækkað jafnt og þétt og hækkar enn um næstu áramót. Stjórnvöld viðurkenna að ekkert er vitað hvort skatturinn hafi nokkur áhrif til minnkunar á útblæstri óæskilegra gróðurhúsalofttegunda og tekjur renna að mestu í óskyld verkefni. Ofan á þetta hefur Hagfræðistofnun HÍ staðfest að gjaldið kemur harðast niður á þeim lægst launuðu og hefur neikvæð áhrif á atvinnusköpun. Kolefnisgjaldið er enn einn skatturinn sem klæddur er í fagran grænan búning.

 

 

Höfundur:  Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 23. nóvember, 2020