Vistun barna á vegum stjórnvalda á einkaheimilum - Þingsályktunartillaga

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, mælti fyrir þingsályktunartillögu sinni um vistun barna á vegum stjórnvalda á einkaheimilum, á Alþingi í dag.

Með tillögu þessari er lagt til að forsætisráðherra, í samráði við dómsmálaráðherra, skoði hvort ástæða þyki til að kanna starfsemi einkaheimila þar sem börn voru vistuð af hálfu stjórnvalda. Ráðherra er falið að afmarka með nánari hætti þá starfsemi sem könnunin á að taka til og það tímabil sem miða á við, að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða. Til hliðsjónar væri hægt að nýta þá þekkingu vistheimilanefndar sem hefur orðið til við vinnu hennar sem og líta til hvernig önnur lönd hafa brugðist við vegna sambærilegra mála, þar á meðal til Noregs.  Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar eigi síðar en í lok maí 2021.

Að mati flutningsmanna er mikilvægt að þeir einstaklingar sem sætt hafa illri meðferð á slíkum heimilum fái að gera upp vistunina. Síðan þessi mál komu upp hefur átt sér stað sársaukafullt uppgjör fjölmargra einstaklinga og ekki síður fyrir samfélagið. Flutningsmenn leggja áherslu á nauðsyn þess að mál einstaklinga sem vistaðir voru af hálfu stjórnvalda á einkaheimilum verði skoðuð með sambærilegum hætti og starfsemi framangreindra heimila, og eftir atvikum, að þeir einstaklingar eigi kost að fá þær misgjörðir bættar.

Þingsályktunartillöguna má lesa í heild sinni hér.

Flutningsmaður:  Karl Gauti Hjaltason

Meðflutningsmenn:  Ólafur Ísleifsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson.

Flutningsræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér