Ábyrgð í Afganistan og á Íslandi

Það má segja að neyðarástand ríki víða í heilbrigðismálum á Íslandi. Fjölmargir þjóðfélagshópar hafa verið sniðgengnir og réttindi annarra hunsuð. Við Íslendingar höfum því verk að vinna við að bæta og laga íslenska velferðarkerfið sem hefur lekið eins og gatasigti undir núverandi ríkisstjórn. Enginn heldur því fram að fjármunir fyrir slíkum umbótum verði teknir upp af götunni og því hætt við að margir sem hafa lagt ómælt til íslenska samfélagsins verði enn að bíða. Þar er hlutur sjúklinga á biðlistum og aldraðra hvað sársaukamestur.

Á sama tíma keppast íslenskir ráðamenn við að kalla yfir sig ábyrgð á því að trúarofstækishópur hafi tekið yfir hið fjarlæga land Afganistan eftir að stærsta herveldi heims heyktist á að halda úti hersveitum sínum þar. Atburðarásin hefur verið hröð en fyrirsjáanleg. Valdabröltið í Afganistan stendur á tímamótum og augljóst að ný öfl og nýjar þjóðir munu nú sigla inn í kjölfarið. Eftir stendur sársaukafull og kostnaðarsöm tilraun við að breyta þjóð sem virðist ekki hafa verið tilbúin að berjast fyrir þessum breytingum sjálf. Gæti verið að heimamenn séu núna þrátt fyrir allt nær því að ráða eigin örlögum?

En bera Íslendingar einhverja ábyrgð á því hvernig fór eins og ráðherrar ríkisstjórnarinnar keppast við að segja? Það er erfitt að sjá. Afskipti Íslendinga hafa fyrst og fremst falist í mannúðarstarfi og að veita afgönsku þjóðinni aðstoð við að nútímavæða samfélagið. Starf sem nú virðist koma fyrir lítið. Íslendingar hafa ekki farið með vopnum inn í Afganistan en hafa svarað ákalli um aðstoð, sem meðal annars hefur komið frá heimamönnum, og látið fé af hendi rakna til uppbyggingar. Því hefur verið sinnt og nokkrir skrifstofumenn starfað þar um lengri eða skemmri tíma. Öll sú vinna getur fallið undir eðlilega þróunaraðstoð.

Það er ekkert sem rökstyður það að Íslendingar beri sérstaka ábyrgð á því hvernig fór í Afganistan. Áfram munu þau alþjóðlegu samtök sem hafa starfað þar reyna að aðstoða nauðstadda og vinna að mannúðarmálum. Við Íslendingar eigum að standa við skuldbindingar okkar gagnvart þessum samtökum og aðstoða þau við að hjálpa Afgönum heima við. Það væri fráleit niðurstaða núna að fara að efna til sérstakra fólksflutninga frá Afganistan til Íslands í einhverri keppni ráðherra landsins við að beina sjónum frá því hvernig þeir eru að skilja við íslenska velferðarkerfið. Missum ekki sjónar á því sem skiptir mestu.

 

Brynjólfur Þorkell Brynjólfsson skipar 3. sæti á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 24. ágúst, 2021