Aðgerðir til að efla hag sameinaðs sveitarfélags BDFS.

Aðgerðir til að efla hag sameinaðs sveitarfélags BDFS.

Undanfarið hefur verið rædd versnandi afkoma hins sameinaða sveitarfélags BDFS af völdum Covid19. Almennt virðist vera ráðaleysi við þessari þróun og sveitafélögin (tvö þeirra a.m.k.) neyðast til að auka skuldir sínar vegna ástandsins. Eru þó skuldirnar ærnar fyrir.
Frambjóðendur  Miðflokksins höfum sett fram eindregin sjónarmið um að  standa vörð um fjárveitingar frá ríkinu og sýna ábyrgð í fjármálum sveitarfélagsins og tökum undir áherslur annarra framboða sem lýst hafa áþekkum viðhorfum.. Því miður duga hvorki fögur orð né grátstafir utan í ríkis-mömmu til að rétta af fjárhaginn. Ríkis-mamma er þekkt fyrir að vera nísk þó gráðug sé.
Ef við vinnum ekki sjálf í að efla athafnalíf og þar með tekjur í sveitarfélaginu er hætt við að í óefni stefni og skuldahalinn lengist. Ef við hjálpum okkur ekki sjálf, þá hjálpar okkur enginn.

Við hjá xM höfum lausnamiðaða sýn á þetta vandamál. Við sjáum tækifæri í að gera hið sameinaða sveitarfélag áhugavert til fjárfestinga og  fólksflutnings inn á svæðið jafnt innanlands frá sem og erlendis frá.
Til að svo megi verða þarf einkum tvennt til:

  1. Góður æðarbóndinn raðar dekkjum og öðru í varplandið að vori til að laða að æðarkollurnar.
    Þegar þær fljúga yfir meta þær aðstæður fyrir varpstað.
    Á sama hátt þarf ný sveitarstjórn að búa til umhverfi sem laðar að fjármagn og skapandi fólk. Mikilvægt er að innviðir svo sem lóðir fyrir iðnaðarhúsnæði, örugg raforka, fjarskipti og samgöngur í víðum skilningi séu í lagi.
    Auðvelt þarf að vera fyrir utanaðkomandi að sjá að svo sé.
  2. Öflug markaðssetning bæði innanlands og erlendis, þá sérstaklega á EES svæðinu.
    Órói, landleysi, öryggisleysi ásamt umhverfisaðstæðum og almennu stressi í Evrópu er tækifæri fyrir öruggt, grænt og afslappað land-auðugt sveitarfélag á Íslandi.

Það skal áréttað að þetta er langtíma-verkefni. Árangurs af því mun ekki gæta strax. En nú er rétti tíminn að undirbúa „æðarvarpið“ á meðan niðursveifla er í efnahagslífi heimsins. Við hjá Miðflokknum höfum í stefnuskrá okkar tillögu að því að ráða öflugan atvinnu og markaðsfulltrúa sem mundi eingöngu vinna að þessari lausn.

Til skamms tíma eru því miður hefðbundnar aðferðir sem fela í sér auknar skuldir og niðurskurður þær einu sem geta haldið fjárhagnum á floti. Niðurskurður útgjalda þarf að vera reistur á skýrri forgangsröðum þar sem þess er gætt  sérstaklega að hann komi ekki niður þar sem síst skyldi, þar sem atvinnutækifæri eru fá og þjónustustig er lágt fyrir.

En ef við bregðumst strax við og byrjum að undirbúa „æðarvarpið“, þá verður uppsveiflan hraðari þegar að henni kemur og mun meiri líkur að hún verði varanleg.

En því skyldi listi Miðflokksins vera líklegri en aðrir til að geta hrint slíkri lausn í framkvæmd?
Jú vegna þess að þar er kraftmikið fólk með reynslu af atvinnurekstri, sölu og markaðsetningu vöru og þjónustu innanlands og utan. Að auka tekjur sveitarfélags er ekki svo frábrugðið sókn í markaðs og sölumálum einkafyrirtækis. Miðflokkurinn skipaður traustu og reynslumiklu fólki mun duga hinu nýja sveitarfélagi vel á komandi tímum.

Þröstur Jónsson Skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í sameinuðu sveitarfélagi Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarða, Djúpavogs og Borgarfjarðar eystri.