Aftur til fortíðar í stað frelsis

Íslendingar fengu ekki frelsi sitt aftur í gær. Þrátt fyrir að nú gangi yfir faraldur í líkingu við hefðbundinn inflúensufaraldur eins og sérfræðingar um allan heim hafa sagt. Meira að segja sóttvarnalækni er ekki lengur stætt á því að neita þeirri þróun í opinberri umræðu, þó hann reyni.

Ríkisstjórnin aflétti eins litlu og hægt var af þeim stórkostlegu og íþyngjandi takmörkunum sem lagðar eru á landann á blaðamannafundi sínum í gær. Þrátt fyrir að allar forsendur væru fyrir algerri afléttingu allra hafta og takmarkana á líf fólks og atvinnu þess. Þau völdu að gera það ekki.

Þvert á móti var í raun ákveðið að framlengja höft og takmarkanir í rúmar sjö vikur. Í sjö vikur. Þegar nær enginn veikist, enn færri leggjast inn á spítalann, æ fleiri bólusetja sig í þriðja sinn og svo mætti lengi telja.

Mér varð hugsað til Michaels J. Fox og Christophers heitins Lloyds og ferðalags þeirra í myndinni „Back to the Future“, þegar ríkisstjórnin kynnti af veikum mætti svokallaða afléttingaáætlun. Það rann nefnilega upp fyrir mér að verið væri að senda þjóðina aftur til 12. nóvember 2021, þegar nokkurn veginn sömu takmarkanir voru tilkynntar – en við allt aðrar aðstæður en nú eru uppi í faraldrinum. Fox og Lloyd ferðuðust fram í tímann en ríkisstjórnin sendi okkur aftur til fortíðar.

Forsætisráðherra talaði um á blaðamannafundinum að hún væri stundum tímabundið þreytt á þríeykinu en svo liði það hjá. Fjármálaráðherra talaði um að hann ætlaði að veita styrki, sem auðvitað eru ekkert annað en bætur, til fyrirtækja í veitingageiranum og á öðrum sviðum vegna takmarkana og lokana – semsagt meira af því sama. Hann hefði getað staðið í lappirnar fyrir hönd stærsta stjórnarflokksins og knúið það fram að atvinnulífinu væri einfaldlega leyft að selja þjónustu sína í friði frá ríkisvaldinu, þeim sem hana vilja kaupa, en hann gerði það ekki. Heilbrigðisráðherra rak svo lestina á blaðamannafundinum og fór mæðulega yfir að farið hefði verið í öllu að tillögum sóttvarnalæknis. Það kom fáum á óvart enda löngu búið að útvista stjórn landsins til þess embættis. Adam var þó ekki lengi í paradís því sóttvarnalæknir bar stuttu síðar til baka að svo hefði verið, þar skeikaði klukkustund í opnun öldurhúsa. Öll sinntu ráðherrarnir þó hlutverki upplýsingafulltrúa sóttvarnalæknis með prýði.

Ríkisstjórnin er föst í tækniatriðum og á flótta undan sjálfri sér og stuðningsmönnum sínum, þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn. Við verðum að losna úr þeim höftum sem nú er uppi því það eru aðstæður til þess. Snúa aftur til fyrra lífs. Lofa fyrirtækjum og fólki í landinu að blómstra. Þessi pest sem Ómíkron-afbrigðið er kallar einfaldlega ekki á annað.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 29. janúar, 2022.