Allt pikkfast í umferðinni

Borgarlína í forgangi. Miklabraut í stokk. Sundabraut áfram í öskustó. Þetta eru áherslumál flokkanna sem skipa meirihlutann í borgarstjórn. Enda þótt valinkunnir sérfræðingar fylli Morgunblaðið með greinum um umferðarmál rituðum af skynsamlegu viti virðist sem trúarsannfæring fulltrúa meirihlutaflokkanna haggist ekki.

Fram hafa komið markverðar upplýsingar um öll þessi framkvæmdamál sem ættu að leiða til stefnubreytingar og að samgöngusáttmáli ríkisins og sex sveitarfélaga verði endurskoðaður. Í umferðarspá Mannvits og Cowi kemur fram að hlutur almenningssamgangna vex aðeins um rúmlega 1% á tímabilinu 2019-2034 þrátt fyrir uppbyggingu borgarlínu. Þetta segir Þórarinn Hjaltason samgönguverkfræðingur jafngilda því að tilkoma borgarlínu muni leiða til þess að bílaumferð 2034 verði aðeins um 2% minni en ella. Þessar tölur liggi innan skekkjumarka í spánni.

Tölur umferðarlíkansins eru sláandi í ljósi þeirra 50 milljarða króna sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að ríkissjóður leggi til borgarlínu og Keldnalandið að auki. Allt þetta fé og nýir skattar til að auka hlut almenningssamgangna um 1% og ná bílaumferð niður um 2%?

Fyrir liggja tillögur hópsins Áhugafólks um samgöngur fyrir alla (ÁS) um létta útgáfu borgarlínu. ÁS leggur til að sérakreinar verði hægra megin við akbrautir á þeim köflum þar sem eru langar biðraðir bíla á álagstímum. Kostnaður er metinn 20 milljarðar króna borið saman við áætlun um 100 milljarða króna kostnað við borgarlínu.

Engar skýringar hafa komið fram um hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn tekur að sér að fjármagna úr ríkissjóði kosningamál vinstri flokka. Þá getur Viðreisn ekki vikið sér undan ábyrgð á stefnumörkun meiri hluta borgarstjórnar í umferðarmálum.

Engin rekstraráætlun liggur fyrir um borgarlínu. Kannski þykir fylgismönnum verkefnisins feimnismál að það verður fólkið sem situr pikkfast í teppunni sem borgarlínan leiðir af sér, þegar tvær akreinar hafa verið teknar undir hana, sem borgar rekstrarkostnaðinn með hugvitssamlegri skattlagningu.

Miklubrautarstokkur á að kosta 21,8 milljarða króna eftir því sem segir í framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans. Fyrir þá fjármuni fæst engin samgöngubót, aðeins öngþveiti og tafir á framkvæmdatíma.

Sundabrautin verður lyftistöng fyrir allt landið. Hún greiðir leið milli höfuðborgarsvæðisins og Vestur- og Norðurlands, stóreykur umferðaröryggi, styttir leiðina á Kjalarnes, dregur úr álagi á Ártúnsbrekku og bætir þar með umferð austur fyrir fjall og kemur til góða íbúum í Grafarvogi og Grafarholti. Landsmenn eiga ekki að þurfa að bíða lengur eftir framkvæmdum við Sundabraut.

 

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins.

olafurisl@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 3. júlí, 2021