Auðlindir og auðlindagjöld

Nýverið mælti ég fyrir þingsályktunartillögu í annað sinn frá því á 149. löggjafarþingi um auðlindir og auðlindagjöld, tillagan var áður lögð fram á 147. þingi af háttvirtum þingmanni Gunnari Braga Sveinssyni. 
 
Þingsályktunartillagan fjallar um að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem:
 
1. Skili tillögum hvort innheimta eigi afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda og þá hvaða auðlinda.

2. Leggi fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds sem gæti gengi fyrir allar auðlindir og geri grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða.

3. Taki saman upplýsingar um hvernig gjaldtöku er háttað í nágrannaríkjum.

Hópurinn skili ráðherra tillögum eigi síðar en 1. maí 2020.  Á tillögunni eru allir þingmenn Miðflokksins. Í tillögu þessari er einnig lagt til að starfshópurinn leggi fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds sem gæti gengið fyrir allar auðlindir og geri grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða. Einnig hvernig innheimtu sé háttað í nágrannaríkjunum og þá sérstaklega í hinum ríkjum Norðurlandanna.

Þessi þingsályktunartillaga er náskyld eða framhald af tillögu um skilgreiningu auðlinda sem ég mælti fyrir 19. október 2018 og var samþykkt 20. júní á nýliðnu sumri. Þeirri tillögu hafði áður verið mælt fyrir á fjórum löggjafarþingum af þáverandi þingmanni, Vigdísi Hauksdóttur. Tillagan fjallaði um að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að fá sérfræðinga á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar til að semja frumvarp til laga sem skilgreini hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru, og er von á frumvarpi þess efnis á vorþingi 2020.

Auðlindaréttur er nýleg fræðigrein í íslenskri lögfræði og er nátengdur umhverfisrétti. Eðli málsins samkvæmt fjallar auðlindaréttur um þær réttarreglur sem varða stjórnun, nýtingu og meðferð auðlinda. Heildstæð stefna um nýtingu auðlinda hefur ekki verið mótuð að neinu marki hérlendis. Eitt af því sem stuðlar að ábyrgri umhverfishegðun er að líta svo á að náttúruauðlindir og réttur þess til að nýta þær hafi verðgildi þó að í sumum tilfellum kunni að vera erfitt að meta slíkt til fjár.

Lengi hafa verið uppi væntingar um að auðlindir landsins skili þjóðinni fjárhagslegum arði með einum eða öðrum hætti. Í gegnum tíðina hafa fyrirtæki í eigu ríkisins greitt arð í ríkissjóð og nægir að nefna Landsvirkjun í því sambandi. Auðlindir sem almennt er talað um sem auðlindir þjóðarinnar geta verið af ýmsum toga. Það eru auðlindir í sjó, lofti eða á landi. Þekkt er veiðigjald í sjávarútvegi og þar ríkir þokkaleg samstaða þó greint sé á um hve hátt það skuli vera. Varla getur talist eðlilegt að aðeins sé lagt auðlindagjald á eina atvinnugrein. Mikilvægt er því að mótuð verði heildstæð stefna enda hefur nýting auðlinda áhrif á umhverfið og brýnt er að auðlindir séu nýttar á skynsamlegan og arðbæran hátt. Hugmyndir hafa verið uppi um stofnun stöðugleikasjóðs að fyrirmynd norska olíusjóðsins þar sem arður af auðlindum ríkisins muni renna allur eða að hluta til í slíkan sjóð. Auðlindanefnd sem kosin var á alþingi 1998 ritaði álitsgerð fyrir forsætisráðuneytið sem kom út árið 2000 um meðal annars gjaldtöku af auðlindum til að standa að rannsóknum á þeim til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu þeirra svo og til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skilaði sér á réttmætan hátt til þeirra sem hafa hagsmuni að gæta. Í niðurstöðu nefndarinnar kom fram að hún teldi gjaldtöku af nýtingu náttúruauðlinda styðjast við eftirfarandi rök:

1. Að standa undir þeim kostnaði sem hið opinbera hefði með rannsóknum á eftirliti um nýtingu auðlindanna.

2. Að tryggja þjóðinni sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting auðlinda í þjóðareign skapaði.

3. Þar sem um er að ræða leiðréttandi skatta og uppbætur (græna skatta).

Þær auðlindir sem nefndin tilgreindi voru: nytjastofnar á Íslandsmiðum, og auðlindir á eða undir sjávarbotni, vatnsfall, jarðhiti, námur og rafsegulbylgjur til fjarskipta.

Með þessum tveim þingsályktunartillögum erum við að taka stórt skref í átt að fjárhagslegum arði af auðlindum landsins.

 

Höfundur: Sigurður Páll Jónsson, alþingismaður Miðflokksins.  

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 3. október, 2019