Bitlaust eftirlit með innflutningi landbúnaðarvöru

Komið hefur í ljós að verulegt misræmi er í tölum um magn innflutnings búvara hingað til lands og útflutningstölum frá Evrópulöndum. Vakið hefur athygli sein viðbrögð yfirvalda hafa verið við ábendingum um þetta misræmi.  Grafalvarlegt er ef brestir reynast við framkvæmd tolleftirlits á búvörum til landsins. Í því efni er mikið undir í öllu tilliti. Ábendingar um að eitthvað væri bogið á ferðinni bárust yfirvöldum fyrr á árinu, þegar greinilegt var að innflutningstölur hingað og útflutningstölu frá Evrópu stóðust ekki.

Landlægir búfjársjúkdómar í Evrópu

Umræður um innflutning á landbúnaðarafurðum hafa staðið lengi. Þeir sem kenna sig við frjálslyndi telja að hingað eigi að flytja inn óheft magn búvara.Felst óneitanlega í því frjálslyndi gagnvart búfjársjúkdómum og skertri lýðheilsu. Alkunna er að víða innan EB er landbúnaður styrktur í bak og fyrir. Stórbúskapur þar með hámarksafköstum notar sýklalyf til að hámarka afköst og berjast við búfjársjúkdóma. Sumir þessir sjúkdómar hafa blessunarlega ekki borist hingað til lands, en vegna einangrunar búfjárstofna okkar eru þeir berskjaldaðir fyrir þessum landlægu pestum í Evrópu.

Mótvægisaðgerðir

Undanfarin ár hefur smám saman verið opnað á innflutning land - búnaðarafurða frá löndum Evrópu - sambandsins og innflutningur heimilaður samkvæmt samningum um magnkvóta í einstökum afurðum. Fyrir rúmu ári samþykkti Alþingi aðgerðaráætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna til að minnka áhættuna af þessum aukna innflutningi. Við það tækifæri héldu Miðflokksmenn lengi uppi andófi á Alþingi með þeim árangri að hert var á mótvægisaðgerðum hér á landi, sem áttu að hindra eða minnka hættuna á að hingað bærust smitsjúkdómar með innflutningnum. Þessar aðgerðir höfðu að markmiði að treysta allt eftirlit hér innanlands.

Hver er raunin?

Íslensk stjórnvöld ætluðu að öryggið yrði sett ofar öllu til að vernda íslenska búfjárstofna. Allt þar til ofangreint misræmi kom í ljós virtist sem við hefðum sterk tök á að verja landið, eins og frekast væri kostur, gegn þeirri vá sem við blasti. Það var því reiðarslag er í ljós kom að það kerfi sem við treystum á var jafn götótt og í ljós kom. Sýnt er að hingað eru fluttar landbúnaðarafurðir sem eftirlitskerfið hefur enga yfirsýn um. Aðferðir eru kunnar og felast í að flytja vörur milli tollflokka. Málið er sagt í skoðun, en á meðan halda rangindin áfram. Málið sýnir okkur svo ekki verður um villst að þrátt fyrir að vera eyja úti í miðju Atlantshafi duga hér engin vettlingatök.

Vont fyrir alla

Ef rétt reynist og misræmið verði ekki skýrt með öðrum hætti verður ríkissjóður af verulegum tekjum. Íslenskir framleiðendur, bændur, sem framleiða hollar landbúnaðarvörur búa við skerta samkeppnisstöðu. Óboðlegt er gagnvart framleiðendum í samkeppni að standa ekki jafnfætis erlendum keppinautum. Grafið er undan smitsjúkdómavörnum, þegar ekki næst full yfirsýn um innflutning landbúnaðarvara.

Viðbrögð stjórnarliða

Frá því þetta misræmi kom í ljós hefur verið spaugilegt að fylgjast með stjórnarþingmönnum sem sármóðgaðir skrifa greinar um málið. Hverjir standa við stjórnvölinn? Eru það ekki einmitt þeir sjálfir? Meira að segja ráðherrar skrifa um hvað sé til ráða. En hverjir ráða? Eru það ekki einmitt ráðherrarnir sem eiga að ráða og stjórna? Í sannleika sagt væri þetta mál allt hið hlægilegasta ef ekki væri fyrir hversu alvarlegt það er. Sannast hér svo ekki verður um villst að brýn þörf er á að treysta landamærin hvað þennan innflutning varðar, þau eru greinilega galopin og allt eftirlit brotakennt. Svo virðist sem mál þetta endurspegli veika stöðu landbúnaðarins í stjórnarráðinu.

Nú er nauðsyn

Vonbrigðum veldur hve kerfið okkar er máttlítið og svifaseint eins og nú hefur berlega komið í ljós. Það er þó ekki alltaf svo, því bændur sem rækta nokkra silunga í tjörn eða slátra heimavið liggja undir smásjá eftirlitsstofnanna. Miðflokkurinn efndi fyrir nokkru til sérstakrar umræðu á Alþingi um misræmið í inn- og útflutningstölum. Þar kom fram þverpólitísk samstaða um skjótar aðgerðir. Nú er brýn nauðsyn á að stjórnvöld taki til hendinni og komi í veg fyrir að innflutningur landbúnaðarvara lúti lögmálum villta vestursins. Þar eiga allir hagsmuni: Ríkissjóður, innlendir framleiðendur og neytendur.

 

Höfundur: Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi 

Greinin birtist í Bændablaðinu þann 5. nóvember, 2020