Fyrir einu og hálfu ári lá fyrir að nauðsynlegt yrði að endurskoða svokallaðan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, enda höfðu þá öll tímaviðmið farið veg allrar veraldar og kostnaðaráætlanir sprungið í loft upp.
Nú ber svo við að þremur vikum fyrir þingsetningu er stokkið til og tilkynnt að uppfærður samgöngusáttmáli verði undirritaður í hádeginu í dag, miðvikudag. Hvers vegna að skrifa undir áður en Alþingi kemur saman? Vini skattgreiðenda rak í rogastans, enda koma fjárveitingar að meginhluta til í gegnum ákvarðanir þingsins fyrir hönd ríkissjóðs (87,5%).
Alþingi mun sem sagt ekki fá tækifæri til að ræða það risamál sem „uppfærslan“ er, heldur skal láta duga að ofurríkið í ríkinu, Betri samgöngur ohf., hafi kynnt uppfærsluna fyrir umhverfis- og samgöngunefnd ásamt fjárlaganefnd á sameiginlegum lokuðum fundi nefndanna í gær.
Mig hafði svo sem rennt þetta í grun síðan núverandi innviðaráðherra fór í flæmingi undan fyrirspurn formanns Miðflokksins við þinglok í vor, þar sem hann krafði ráðherrann svara um hvort Alþingi fengi ekki tækifæri til að ræða mál er tengdust endurskoðuninni, breytingu á tímalínu og umfangi.
Nú skal skrifa undir nýjan samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið sem felur í sér kostnað upp á 311 milljarða í stað þeirra 120 sem áætlaðir voru þegar verkefnið var kynnt í september 2019. Líkurnar á að sú tala haldi eru svo auðvitað hverfandi.
Ef við uppfærum 120 milljarðana, miðað við byggingarvísitölu, þá stæði kostnaðurinn í 170 milljörðum í dag. Það sem borið er á borð eru 311 milljarðar! 141 þúsund milljónum meira en vísitöluleiðrétt upphafsáætlun gerði ráð fyrir.
Til að setja viðbótarkostnaðinn í samhengi, þá samsvarar 141 milljarður öllum útflutningstekjum af þorskafurðum á síðasta ári. Bara viðbótarkostnaðurinn, umfram vísitölu! Eða 280 bröggum (ef lóðir væru tiltækar)!
Ef ætlun þeirra sem opinbera hlutafélaginu stýra, þeirra sem stýra ríkisfjármálunum og þeirra sem stýra sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er að auka skuldbindingar hins opinbera með þessum hætti, um 141 milljarð að raunvirði, án þess svo mikið sem að gefa Alþingi kost á að ræða málið, þá er mesta furða í raun ef Seðlabankinn hækkar ekki meginvexti sína við næsta tækifæri. Slíkt er virðingarleysið gagnvart útgjöldum hins opinbera.
Svo ætlar ríkissjóður að stíga inn í rekstur strætós eins og við þekkjum hann og borgarlínu til viðbótar, en ein af forsendum samþykktar Alþingis á lögum sem grundvölluðu stofnun Betri samgangna ohf. var að ríkissjóður kæmi ekki að rekstrinum. Þar fór það.
Það virðast vera fáir vinir skattgreiðenda í stjórnmálum nú um stundir, í öllu falli eru þeir fáir innan stjórnarflokkanna.
Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 21. ágúst, 2024.