Borgarlínuverkefni í felulitum - Hvar er Teresa?

Ólöf Kristjánsdóttir, verkfræðingur og fagstjóri hjá Mannviti hf., og Meta Reimer Brödsted, frá danska ráðgjafafyrirtækinu COWI, birtu grein í Morgunblaðinu 6. nóvember sl. Í þeirri grein var gerð tilraun til að upplýsa almenning um að borgarlínan myndi færa landsmönnum einhvern félagshagfræðilegan ábata. Sú tilraun misheppnaðist hrapallega enda birtist borgarlínan þar í felulitum.

Í frétt af vef Mannvits frá 12. september 2019 segir að „Mannvit í samstarfi við Cowi var hlutskarpast í útboði Vegagerðarinnar á gerð nýs samgöngulíkans fyrir höfuðborgarsvæðið […]“. Einnig segir í sömu frétt að verkefnið væri „[…] samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu“. Almennt er nú svo um slík útboð að samningssambandið hér er annars vegar verktaki og hins vegar verkkaupi, þ.e. Vegagerðin og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem Samband íslenskra samvinnufélaga er löngu liðið undir lok og lítið um samvinnufélagaform almennt er ekki séð að fyrirkomulagið sé nokkuð annað en verið hefur um áratugi, þ.e. hefðbundið samningssamband milli verktaka og verkkaupa.

Í grein þeirra Ólafar og Metu er leitast við að svara gagnrýni á nýlega útgefna skýrslu um félagshagfræðilega greiningu á borgarlínuverkefninu. Það hefur komið fram að sitt sýnist hverjum og hér er leitast við að koma öðru sjónarmiði að.

Ólöf og Meta nefna til leiks Teresu. Það er heitið á arðsemislíkani því sem samgönguráðuneyti Danmerkur gefur hverjum sem verða vill. Hef ég m.a. nálgast Teresu á vef danska ráðuneytisins. Það er alveg ljóst að Teresa er álíka snúin og grein þeirra Ólafar og Metu, a.m.k. sú útgáfa af henni sem ég fékk. Sú Teresa sem ég fékk var reyndar galtóm og óútfyllt en með áhugaverðum skýringum. Þar mátti þó sjá að gert hafi verið ráð fyrir 4% ávöxtunarkröfu í henni annars óspilltri. Teresa er í raun ekkert annað en danskt excel-skjal á sterum.

Í grein sinni staðfesta þær Ólöf og Meta að þær hafi náð tökum á Teresu, fyllt hana og tekið hana „út á lífið“. Úr varð borgarlína, uppfull af ábata. Um þá aðferð fjölluðu þær í grein sinni og allan þann rómans. Í krafti umboðsins sem ég fékk í síðustu sveitarstjórnarkosningum hef ég sett mig í samband við fulltrúa Verkefnastofu borgarlínu og Ólöfu Kristjánsdóttur hjá Mannviti. Markmiðið var að fá að sjá þessa Teresu sem Ólöf segist þekkja vel. Það er skemmst frá að segja að ég hef hvorki fengið svör né skýringar. Þær skýringar sem lesa má út úr grein þeirra tveggja, Ólafar og Metu, lýsa fremur trúboði. Þar segir m.a. að lausn „[…] fælist í fjölbreyttum samgönguvalkostum sem auka afköst í samgöngum og gæði hins byggða umhverfis“. Hver getur hafnað fegurð þessari? Eftir útlistun á draumsýn verktaka Vegagerðarinnar og SSH er aðeins eitt eftir. Það er að fá að vita hvað „heilaga“ Teresa hefur sjálf um þetta að segja.

Þrátt fyrir ítrekanir og eftirgangsmuni, m.a. í ljósi þess að ég sit í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins fyrir hönd hluta íbúa svæðisins, þ.e. Mosfellinga, sem eiga m.a. að borga kostnaðinn, hefur ekkert svar borist. Engin gögn hafa komið fram sem útskýra útreikninga Teresu eða hvar hún er niður komin.

Með þessari grein minni ítreka ég enn og aftur óskir mínar um að fulltrúar Verkefnastofu borgarlínu, SSH og Vegagerðin, þ.e. verkkaupar, kalli eftir þessum upplýsingum, nákvæmum skýringum og að Teresa verði framseld frá Danmörku til Íslands hið fyrsta. Þar sem skattborgarar hér á landi hafa þurft að greiða fyrir útfyllingu excel-skjalsins góða er rétt að þeir sem hafa unnið að því fyrir opinbert fé skýri aðferðirnar og skili niðurstöðunum útskýrðum betur en nú er. Þeim ber skilyrðislaus skylda til að útlista ítarlega alla útreikninga og koma þessu öllu á þannig form að almenningur geti áttað sig á hvað býr að baki. „Aumir“ trúleysingjar og fulltrúar þeirra sem eiga allt að borga eru afskiptir í öllu ferlinu á meðan Teresu er beitt úr mikilli fjarlægð á fremur fáfróða íslenska stjórnmálaelítu. Er það kannski markmiðið?

Svo er það með ávöxtunarkröfuna blessuðu sem brúkuð er við núvirðisútreikninga Mannvits og Cowi. Venja er að ákvörðun um slíka kröfu liggi hjá eigendum verkefna, ekki verktaka úti í bæ. Þar hafa trúboðarnir tekið sér meira vald en telja má að Teresa boði í raun. En fjarlægðin gerir víst fjöllin blá og Teresu töff. Hvers vegna í ósköpunum notaði Mannvit þá 5% ávöxtunarkröfu við mat á „fluglest“ fyrir fáeinum misserum? Mat á því ástarævintýri Reykjavíkurborgar og Mannvits gat af sér þennan „króga“ árið 2014 sem virðist ættaður frá Bifröst og virðist belgja út ábata eftir pöntun. Hvatberi þess verkefnis starfar nú ötull við að byggja fyrir Reykjavíkurborg ofan í vegstæði Sundabrautar á Gufunesi.

En Teresa, hún fékk aðeins notið 4% ávöxtunarkröfu en það virðist alveg hafa nægt fyrir Ólöfu og Metu til að fylla hana. Ástæðan kann að vera sú að Teresa sé í raun dönsk.

Höfundur:  Sveinn Óskar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ og situr í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins (SSH).

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 12. nóvember, 2020