Breytingar í bakgarðinum

Breytingar í bakgarðinum

Nú er vorið í allri sinni dýrð á næsta leiti og þá er tímabært að huga að hvernig garðurinn kemur undan vetri. Grafarvogsbúar hafa fæstir orðið varir við hvaða breytingum er verið að lauma í gegn í bakgarði hverfisins. Það sem er samt á allra vitorði eru smáhýsin sem reyst voru utan skipulags og í vegstæði Sundabrautar og þorparablokkirnar sem nú rýsa við húshornið sem eru í veghelgunarsvæði sömu brautar.

Nýjustu vendingarnar í þessum málum eru þær að á fundi skipulags- og samgönguráðs sem haldinn var þann 24. mars sl. var kynnt skipulagslýsing fyrir deiliskipulag vegna nýrra samgöngutenginga úr Gufunesinu upp á Strandveg í Grafarvogi. Hér er um að ræða hjóla- og göngustíga tengingar úr „bíllausa lífstílshverfinu“ inn í Grafarvoginn. Hvergi er minnst á að þessar þveranir ganga allar þráðbeint yfir vegastæði Sundabrautar og eru þær kynntar sem „bráðabirgðatengingar“ milli hverfa.  Allir vita að smáhýsin voru líka kynnt sem bráðabirgðarlausn en nú hafa þau verið sett niður á steypta sökkla og byggðir hafa verið pallar og skjólveggir í kringum þau og eins og áður segir utan skipulags.

Á meðfylgjandi mynd má glöggt sjá að nú á að smygla smáhýsunum inn á deiliskipulag á grunni stíga- og göngustíga á milli hverfa. Það er m.ö.o. verið að festa smáhýsin í sessi sem framtíðarlausn og gera þau lögmæt á þessum stað með þessu breytta skipulagi.   

Asinn á þessum samgöngutengingum er mjög mikill sér í lagi í ljósi þess að vinna stendur nú yfir af hálfu ríkissins um framtíðarstaðsetningu Sundabrautar – þá ríkur borgarstjóri og meirihlutinn í þessar æfingar sem sagðar eru víkjandi og til bráðabirgða. Ekkert er hugsað um kostnaðarhliðina en samkvæmt öllum framkvæmdum hjá borginni verður engu til sparað. Í þessu verkefni verður peningunum mokað út um gluggan – í það minnsta ef moka á framkvæmdunum í burtu eftir örfá ár vegna Sundabrautar.

Snýst þetta mál í raun og sann um þessar samgöngutengingar? Nei það held ég ekki – þessar breytingar á deiliskipulagi snúast um að koma smáhýsunum inn á skipulag, festa þau í sessi og að hindra það að Sundabraut verði að veruleika. Öll þessi vinna fer fram á vakt borgarstjóra sem er formaður almannavarna á höfuðborgarsvæðinu. Hann tekur þessa dellu og þráhyggju sína gegn Sundabraut fram yfir öryggi borgarbúa ef til rýmingar kæmi. Já þetta er það sem er að gerast í bakgarði ykkar kæru Grafarvogsbúar. 

Vigdís Haukdsóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu þann 8. apríl, 2021