Byggt á stefnu og staðreyndum

Í sumar var öllum vafa um áhrif þriðja orkupakkans eytt með með því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins höfðaði mál gegn Belgíu vegna orkupakkans. Stjórnvöld landsins höfðu ætlað sér að hafa eitthvað um framkvæmdir í orkumálum að segja. Þau vildu líka eiga síðasta orðið um tengingar landsins við sameiginlegt raforkukerfi Evrópu. Þetta var óásættanlegt að mati ESB, sem vildi að orkustofnun sambandsins og útibú hennar í Belgíu yrðu allsráðandi. Áður hafði ESB ráðist í málaferli gegn 12 ríkjum sambandsins fyrir að bjóða ekki út nýtingarrétt orkuauðlinda, m.a. vatnsaflsvirkjana í ríkiseigu.
Fátt varð um svör frá talsmönnum orkupakkans hér á landi sem höfðu haldið því fram að innleiðingin, sem þeir hafa barist svo hart fyrir, hefði í raun engin áhrif. Einhverjir þeirra sem þannig höfðu talað gripu þá í það hálmstrá að benda á að staða Belgíu væri önnur en Íslands þar sem þar væru þegar raforkutengingar við önnur Evrópulönd, þ.m.t. sæstrengur. Sömu rök hafa verið notuð varðandi Noreg en beiðni þeirra um vald yfir lagningu sæstrengja í eigin landgrunni var hafnað af ESB.

Það er kaldhæðnislegt að gripið sé til þessara raka til að skýra muninn á áhrifum orkupakkans á Íslandi og í Belgíu. Evrópusambandið lýsir því skýrt að eitt af meginmarkmiðum pakkans sé að tengja ný svæði, ekki hvað síst eyjar, við sameiginlega orkumarkaðinn. Ef sambandið er ekki einu sinni tilbúið að leyfa stjórnvöldum ríkja að taka ákvarðanir um nýjar tengingar við evrópska orkukerfið geta menn rétt ímyndað sér hvort það muni frekar sætta sig við að stjórnvöld komi í veg fyrir nýjar tengingar.

Vilji menn raundæmi um hvernig farið er með umsóknir um nýjar sæstrengstengingar er það að finna á Kýpur. Kýpur er eyja eins og Ísland. Landið var ótengt við raforkukerfi Evrópu. Þegar fjárfestar höfðu safnað fjármagni fyrir tengingu Kýpur við raforkukerfi Evrópu í gegnum Grikkland höfðu þeir samband við orkustofnanir landanna og yfirstofnunina ACER. Þá tóku orkustofnanirnar við keflinu undir handleiðslu ACER til að tryggja að stjórnvöld í löndunum myndu ekki leggja steina í götu verkefnisins.

Fyrir liggur að breskt fyrirtæki telur allt til reiðu til að hefja lagningu sæstrengs til Íslands. Fullyrðingar um að innleiðing þriðja orkupakkans geri lagningu strengs erfiðari en ella eru undarlegar í ljósi markmiða pakkans og þeirrar staðreyndar að helstu talsmenn sæstrengs eru eindregnir stuðningsmenn pakkans.

Áhersla á mikilvægi fullveldis á sér langa sögu í stjórnarflokkunum. Ég hvet þingmenn þeirra eindregið til að líta á staðreyndir málsins og taka mið af eigin stefnu og afstöðu yfirgnæfandi meirihluta eigin flokksmanna. Telji menn að með því að samþykkja orkupakkann í dag sé málið frá er það mikill misskilningur. Þá væri það fyrst að byrja fyrir alvöru.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 2. september, 2019.