Byrgja skal brunninn

Byrgja skal brunninn

Það dylst fáum að hörmungarnar sem þjóðin og veröldin öll stendur frammi fyrir hefur mikil áhrif á velsæld fólks. Vonandi komumst við farsællega út úr hamförunum.

Undirritaður hefur alloft vakið máls á einum hópi og vandamálum þeim tengd sem allt of sjaldan eru rædd. Hér er ég að tala um drengi og unga menn. Rannsóknir sýna að menntun margra drengja er ábótavant. Stórt hlutfall drengja sem útskrifast úr grunnskóla er illa eða ekki læs. Ungir menn leita sér síður menntunar og hlutfall þeirra sem hætta skólagöngu er allt of hátt. Það væri að æra óstöðugan að tiltaka öll þau vandamál sem steðja að ungum körlum,  en hlutfall áfengis og vímuefnavanda, afbrota svo ekki sé minnst á sjálfsvíg er hátt í þessum hópi. Ungir menn sem flosna upp úr skóla glíma oft við atvinnuleysi með öllum þeim hörmungum sem því getur fylgt. Margir glíma við þunglyndi, tölvufíkn, félagslega einangrun og ná almennt ekki að fóta sig í samfélaginu.

Samfélagslegur kostnaður alls þessa er mikill. Hér er á ferðinni stórt vandamál, sem oft gleymist enda er um að ræða hóp sem á sér fáa málsvara.

Við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu verðum við að gæta hagsmuna drengjanna okkar, í þeim og þeirra framtíð liggja mikil verðmæti.

 

Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins

kgauti@althingi