Dagur í járnum

Ég hafði ætlað mér að fjalla um nýtilkomið hatur Framsóknarflokksins í Reykjavík á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni í þessum pistli, enda ærin ástæða til. En borgarstjórinn í Reykjavík leyfði sér í liðinni viku að nálgast ótrúlegt tap á rekstri borgarsjóðs fyrstu sex mánuði ársins með þeim hætti að ekki er annað hægt en að ræða það stuttlega.

Fyrstu sex mánuði ársins var tap af borgarsjóði upp á tæpa 9 milljarða. Nánar tiltekið 8.893 milljónir. Borgarstjóri brást við af léttúð og sagði reksturinn „í járnum“. Sem er ótrúleg framkoma í garð framtíðarútsvarsgreiðenda, barnanna okkar, sem koma til með að borga þessa óráðsíðu Dags B. Eggertssonar.

Þetta eru rétt um 50 milljónir á dag sem borgarsjóður tapar, 2 milljónir á klukkustund, líka á meðan borgarstjórinn sefur. Nær væri að lýsa þessum rekstri sem stjórnlausum í stað þess að fara með fleipur og segja hann „í járnum“.

Það þarf sérstaka gerð af raunheimarofi til að telja það að tapa tveimur milljónum á klukkustund, allar klukkustundir fyrri hluta ársins, vera rekstur í járnum. Í fréttum Ríkisútvarpsins var þessu lýst þannig:
„Nokkur halli var á rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar fyrstu sex mánuði ársins og rekstrarniðurstaðan neikvæð um tæpa 9 milljarða króna.“ Þannig að ef einhver hélt að ríkisfjölmiðillinn, RÚV okkar allra eins og þeir auglýsa svo fjálglega, gætti hagsmuna borgaranna í svona máli, þá var það rangt mat.

Almennur málskilningur er að orðið „nokkur“ í þessu samhengi lýsi hóflegri framúrkeyrslu. En það sem þarna hafði gerst er að borgarsjóður hafði tapað því sem nemur öllum tekjum RÚV á ársgrundvelli (lögþvinguðum og auglýsingatekjum) og tveimur milljörðum betur, á fyrri helmingi ársins. Þetta kallar RÚV að „nokkur“ halli hafi orðið af rekstri borgarsjóðs. Slíkt er auðvitað ekki boðleg framsetning.

Rekstur borgarsjóðs er augljóslega ekki í járnum, hann er ósjálfbær og leikfimiæfingar með endurmat íbúða Félagsbústaða, sem nú nemur nærri 100 þúsund milljónum í bókum borgarinnar, bæta þar í engu úr. Í bókum Reykjavíkurborgar eru nú um 100 milljarðar af froðu. Kalli það ekki á skoðun til þess bærra yfirvalda, þá veit ég ekki hvað þarf til.

Framsóknarflokkurinn, sem boðaði hátt og snjallt breytingar í aðdraganda kosninganna fyrir stuttu, tryggði svo að maðurinn og flokkarnir sem bera ábyrgð á þessari óráðsíðu fengju áframhaldandi stöðu við völd í höfuðborginni. Flokkurinn tók þannig ábyrgðina til sín og verður því fróðlegt að sjá hvort formaður þess flokks og ráðherra sveitarstjórnarmála geri það sem honum ber að gera í tengslum við óráðsíu og froðuframleiðslu borgarinnar? Ætli það sé ekki bara best að bíða og sjá.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 5. september, 2022.