Dauft yfir vötnum við útvegun bóluefnis

Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra hafa hvað eftir annað sagt þjóðinni að bólusetning hennar yrði sem næst í höfn um mitt ár. Orðfærið hefur þó tekið breytingum. Framan af var sagt að þorri þjóðarinnar yrði bólusettur fyrir mitt ár. Svo var tekið að segja að meirihluti hennar yrði bólusettur fyrir mitt ár. Nú síðast var sagt að mikill meirihluti yrði bólusettur fyrir mitt ár.

Engar skýringar hafa verið gefnar á hvað liggur að baki þessum fullyrðingum eða á breyttu orðalagi sem felur í sér umtalsverða efnislega breytingu. Þögnin felur í sér að gefið sé í skyn að meira búi að baki sem ekki er unnt að greina frá. Samt læðist að sá grunur að ekkert sé þarna handan við, ekki sé frá neinu að segja.

Þetta virtist staðfest í umræðu á Alþingi á föstudaginn þegar heilbrigðisráðherra gaf skýrslu um sóttvarnir og svaraði spurningum alþingismanna. Hún sagði í svari við spurningu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að góðra tíðinda væri að vænta síðar um daginn af bóluefni frá Johnson og Johnson. Þegar Sigmundur gekk á hana í síðari spurningu gaf hún upp tölurnar. Um óverulegt magn er að ræða.

Sigríður Á. Andersen spurði hvort ekki mætti leita til þjóða sem veigra sér við að nota bóluefni frá AstraZeneca og fá það tímabundið að láni. Heilbrigðisráðherra tók þessari spurningu ekki vel, talaði um að „seilast í“ bóluefni annarra og þjóðir hefðu sjálfdæmi um ákvarðanir um bólusetningu. Með þessum ummælum gerði ráðherra Sigríði upp skoðanir og réðst á hana fyrir þær. Hér er beitt kunnu pólitísku bragði sem maður hefði haldið að ætti að liggja utan við umræðu af þessu tagi.

Heilbrigðisráðherra tókst þó með þessum svörum að draga fram að það er ekkert að frétta af hennar vettvangi um útvegun bóluefnis.

Ísraelar hafa bólusett þorra þjóðarinnar, Bretar yfir 40% og Bandaríkjamenn meira en þriðjung. Chile og Sameinuðu arabísku furstadæmin eru komin vel á veg. Þessi dæmi sýna að pólitískt framtak skiptir máli. Við sitjum aftast í vagni ESB og máttum taka við skilaboðum um að verða fyrir útflutningshömlum vegna deilna ESB við Breta. Samt gengur heilbrigðisráðherra fremstur ráðherra á Vesturlöndum við að verja klúðrið sem ESB hefur ratað í þegar hann er ekki að verja árangursleysi ríkisstjórnarinnar við að útvega þjóðinni bóluefni.

Ekki er að sjá af svörum ráðherra að neinir uppburðir séu fyrir hendi, hvergi nein pólitísk sambönd né skipuleg beiting annarra tengsla sem gætu gagnast við að útvega bóluefni. Dugmikið fólk væri búið að skila þjóðinni meiri árangri.

 

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður

olafurisl@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 29. mars, 2021