Embættismannaflokkur Reykjavíkur

Borgarstjórn er æðsta stjórnvald Reykjavíkur og er fjölskipað stjórnvald sem felur í sér að ákvarðanir um stjórnun sveitarfélagsins eru teknar á fundum sveitarstjórnar með meirihlutasamþykktum en ekki af einstökum fulltrúum. Borgarstjórn er einnig opinbert stjórnvald sem ber ábyrgð á framkvæmd laga á ýmsum sviðum. Eftirlitshlutverk kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn er ærið og hafa borgarfulltrúar bæði stjórnunar- og eftirlitshlutverk með starfsemi og rekstri borgarinnar. Stjórnunarhlutverkið tengist því að sveitarfélagið er veitandi opinberrar þjónustu og vinnuveitandi. Það er eigandi fasteigna, fyrirtækja og fjármagns og það ber ábyrgð á þróun og uppbyggingu í sveitarfélaginu. Nú hefur þetta stjórnunar- og eftirlitshlutverk borgarfulltrúa verið rofið og hinni svokölluðu neyðarstjórn Reykjavíkur verið falin stjórnun og rekstur Reykjavíkurborgar með borgarstjóra fremstan í flokki og er hann einráður í stjórninni sem skipuð er auk hans embættismönnum borgarinnar. Samkvæmt upplýsingum sem kynntar voru í borgarráði í síðustu viku hefur neyðarstjórnin starfsmann og skal hann bera ábyrgð á fundarboðun, undirbúningi funda, fundarritun og úrvinnslu í samráði við borgarstjóra. Allar götur síðan 31. janúar hefur neyðarstjórn borgarinnar komið saman og haldið um 70 fundi framhjá borgarstjórn, borgarráði og fagráðum borgarinnar – kosnum borgarfulltrúum sem borgarbúar völdu í síðastliðnum borgarstjórnarkosningum. Fundargerðir þessara funda haf hvergi verið samþykktar eins og sveitarstjórnarlög kveða á um, hafa ekki verið birtar opinberlega og voru fyrst kynntar í borgarráði 5. nóvember sl. og þá í trúnaði sem „fundarpunktar“. Neyðarstjórn Reykjavíkur hefur tekið sér óeðlilegt vald. Neyðarstjórn hefur m.a. tekið sér það vald að fjalla um fjármál borgarinnar sem er ekkert annað en brot á sveitarstjórnarlögum enda fer borgarráð með fjárheimildir samkvæmt stjórnskipulagi sem bundið er í sveitarstjórnarlögum. Hef ég nú þegar lagt fram fyrirspurn til skriflegs svars sem hljóðar svo: „Hvað hefur miklu fjármagni verið úthlutað og ráðstafað í gegnum ákvarðanir neyðarstjórnar og í hvaða tilgangi tæmandi talið og hvaða heimildir lágu til grundvallar?“ Borgarráð hefur ekki og getur ekki afsalað sér neinum völdum til neyðarstjórnar. Svo virðist sem ekki gildi lengur sveitarstjórnarlög, stjórnsýslulög eða samþykktir borgarinnar um störf borgarstjórnar, borgarráðs og fagráða. Ekki er hægt að tala um að neyðarstig hafi staðið síðastliðna níu mánuði vegna þess að ástandið hefur verið viðvarandi. Kalli ástandið á að þurfa að taka ákvarðanir í skyndi sem varða fjárútlát er hægur leikur að kalla borgarráð saman á stuttan neyðarfund í fjarfundabúnaði. Lögbundinn daglegur og hefðbundinn rekstur Reykjavíkur getur aldrei verið keyrður áfram á lögum um almannavarnir nr. 82/2008. Svo rammt kveður að í valdatöku neyðarstjórnar að samkvæmt „fundarpunktum“ frá 12. mars var rætt um að fækka fundum borgarráðs og hafa fundi á tveggja vikna fresti í stað einu sinni í viku. Ég varaði við því í upphafi faraldursins að Covid-19 yrði ekki notað sem búhnykkur eða hvalreki fyrir rekstur borgarinnar. Því miður hefur það ræst og valdaframsalið til neyðarstjórnarinnar augljóst eins og „fundapunktar“ neyðarstjórnarinnar bera með sér. Fundapunktarnir eru sveipaðir trúnaði og koma líklega aldrei fyrir augu annarra en þeirra sem sitja í borgarráði. Þetta er fáheyrð stjórnsýsla á árinu 2020 og allt tal um gegnsæi hjóm eitt. Í síðustu borgarstjórnarkosningunum var X-E, Embættismannaflokkurinn ekki í framboði en hann stjórnar Reykjavíkurborg í dag þvert á öll lög með mikilli velvild meirihlutans. 

 

Höfundur:  Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 13. nóvember, 2020