Engin Sundabraut = Engin borgarlína

Þegar samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var undirritaður í september 2019, af sex sjálfstæðismönnum, borgarstjóra Samfylkingarinnar og tveimur til viðbótar, vakti sérstaka athygli málsgrein sem kvað á um greiða tengingu Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins. Málsgreinin hljóðar svo:

„Við útfærslu verkefna framkvæmdaáætlunarinnar verði sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta svo sem Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.“

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði svo í umræðum um samgönguáætlun á Alþingi í júní 2020 að ástæður þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefði gengist undir samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og framkvæmdir tengdar borgarlínuhugmyndum Samfylkingarinnar væru að Vegagerðin fengi þá loks að hefja nauðsynlegar framkvæmdir á stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins. Með öðrum orðum höfðu ríkisstjórnarflokkarnir fallist á að greiða lausnargjald.

Fjárlaganefnd tók einnig fram í nefndaráliti meirihluta, um frumvarp fjármálaráðherra varðandi stofnun opinbera hlutafélagsins Betri samgöngur ohf., að:

„Við útfærslu verkefna framkvæmdaáætlunarinnar verði sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta, svo sem Sundabrautar, inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins. Hvað tengingu við Sundabraut varðar þarf að vinna skipulag hennar og Sæbrautarstokks í samhengi, enda má líta á Sæbrautarstokk sem fyrsta áfanga Sundabrautar.“

Áfram segir í áliti fjárlaganefndar: „Nauðsynlegt er að hafa það í huga að heildarsamkomulagið verður því að ganga upp til að markmið samkomulagsins náist.“

Það er því ljóst að án Sundabrautar verður engin frekari vinna við borgarlínu.

Á meðan verður hins vegar hægt að nota tímann í að snjallvæða ljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu, sem skilar 25-40% minni biðtíma ökutækja á gatnamótum. Hægt verður að styrkja hjólreiðastígakerfi höfuðborgarsvæðisins, þótt það sé í boði þeirra sem eiga og nota bifreiðar og borga af þeim skatta og gjöld. Þá má einnig gera ráð fyrir því að hægt verði að komast áfram með lagfæringar á núverandi stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins.

En á meðan Reykjavíkurborg stendur í vegi fyrir lagningu Sundabrautar sem tengir landsbyggð við höfuðborgina þá verður allt stopp varðandi hugmyndir þeirra um borgarlínu. Kosningaloforð Samfylkingarinnar verða því hjómið eitt, einu sinni sem oftar. Þetta veltur þó á því að Sjálfstæðisflokkurinn falli ekki frá þeim skilyrðum sem sett voru á öllum stigum málsins – að til þess að ráðast megi í gerð borgarlínu þurfi að ráðast í gerð Sundabrautar.

Það verður fróðlegt að sjá hvort sjálfstæðismenn standi í lappirnar í þessu máli. Ef ekki, verði mönnum þá að góðu.

 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins í norðvesturkjördæmi

bergthorola@althingi.is 

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 17. maí, 2021