Íslenskur almenningur skynjar vel að það er eitthvað undarlegt um að vera í Vegas.
Ef Íslendingar missa trú á gjaldmiðli sínum munu þeir hafna honum. Það „peppar“ enginn upp krónuna nema að hafa á henni trú. Íslendingar hafa misst alla trú á ríkisstjórn Íslands og efnahagsstefnu hennar. Það er ekki að undra. Það er ekki að furða að landar mínir, vinir bæði og vandamenn, fólk til sjávar og sveita, átti sig ekki á framferði Seðlabanka Íslands með yfir ársgamla 9,25% meginvexti (stýrivexti). Seðlabanki Íslands er bundinn í báða skó, bæði með lögum og kröfunni um trúverðugleika og gæði íslenska vaðmálsins, íslensku krónunnar.
Vísitala neysluverðs byggist á 12 liðum (meginundirvísitölum) sem eru mældir og vegnir í „matarkröfunni“ með reglubundnum hætti og eiga að mæla „hitastig“ hagkerfisins, verðbólgu.
Kínverjar tóku upp mælingar í Peking á sínum tíma og þegar mengunin í höfuðborginni sló öll met, sem áður voru sett, var mælinum bara breytt og viðmiðununum um hættulega mengun einnig. Það hentaði stjórnvöldum bærilega, a.m.k. um hríð. Nú treysta fáir mælum kínverska Alþýðulýðveldisins og fara því orðið eftir mengunarmælum bandaríska sendiráðsins í borginni.
Við megum ekki vanmeta skynjun almennings á eigin skinni. Brunasár verðbólgunnar eru vel þekkt. Það er vel athugandi hvort eitthvað sé bogið við mælingar á vísitölu neysluverðs. Þrátt fyrir áskoranir hafa ekki farið fram trúverðuglegar rannsóknir á gerð þessarar vísitölu, innihaldi hennar og mati á 12 undirvísitölum hennar sem og öðrum liðum þar í hyldýpi íslenskrar efnahagsógæfu.
Frá því fyrir um 26 árum hefur vægi reiknaðrar húsaleigu (undirvísitölu í húsnæðislið vísitölu neysluverðs), sem metur neysluvirði þess að búa í eigin húsnæði, farið úr 8,11% í 18,83%. Vægi þessa liðar hefur því vaxið um 132% á þessu 26 ára tímabili. Hver þekkir ekki það að húsnæðið, rekstur þess, kostnaður vegna flækjustigs við skipulags- og byggingamál, hefur hækkað? Við vitum öll hverjir hafa valdið því. Þessi eini liður, þ.e. að búa í eigin húsnæði, vegur einna þyngst allra undirliða vísitölunnar og húsnæðisliðurinn einn og sér vegur þyngst (28,16%) allra 12 undirvísitalna vísitölu neysluverðs.
Hvers vegna ætli þessi liður dragi ekki nú niður vísitölu neysluverðs þegar fáir eða enginn virðist geta selt fasteign? Fasteignir hlaðast upp á markaðnum og sala dregst hratt saman. Vissulega tekur þetta allt tímann sinn vegna hlaupandi meðaltala og hægfara þróunar. Á þetta hefur greinarhöfundur bent allt frá árinu 2011.
Margoft hefur verið áréttað að aðferðafræði Hagstofu Íslands við mat á fasteignamarkaði er í skötulíki, umbúnaður þar stærri og borubrattari en efni standa til. Aðferðum virðist þar beitt sem erlend ríki innan OECD gera ekki með sama hætti jafnvel þó hagkerfin séu mun stærri og búi yfir víðtækari upplýsingum og áreiðanlegri en Hagstofa Íslands. Þegar kreppir að hér er plástrað í líkanið (matrixuna í yfirstærð) og það límt við og múrað í rifurnar í kreppu enda finnast ekki kaupsamningar um allar fasteignir sem fyllt geta í skörðin.
Eru bankarnir hugsanlega að halda uppi verði á markaðnum og beita þar fyrir sér íslensku stjórnkerfi svo skuldabréfasafn á eignarhliðinni þar á bæ falli ekki í virði? Hvar liggja þessi þræðir sem valda þessari áþján?
Auk eiginfjárkrafna Seðlabanka Íslands gagnvart fjármálafyrirtækjum koma til kröfur BASEL III um gæði, áhættumat og seljanleika eigna fjármálafyrirtækja og er spurn hvernig færi fyrir íslensku bankakerfi fengi fasteignaverð að lækka eins og á virkum mörkuðum víða erlendis. Er hugsanlega ekki virkur fasteignamarkaður á Íslandi? Hví lækka fasteignir á Íslandi ekki að nafnverði? Hvernig á sá sem missir eign að eiga möguleika á endurkomu á fasteignamarkað sem aðeins stendur í stað á nafnverði eða hækkar? Hvernig kemst ungt fólk inn á fasteignamarkaðinn? Við vitum vel að í nauðungarsöluferli er kröfuhafa, t.a.m. fjármálafyrirtæki, aðeins nægjanlegt að bjóða upp í kröfu sína en ekki í hana alla.
Hvers vegna fylgir enn einkabönkum á Íslandi þessi óbeina niðurgreiðsla og bakhjarlastuðningur laga- og embættiskerfisins eins og um ríkisbanka sé enn að ræða? Hvernig aðlagast kerfið innleiðingu nýrra reglugerða frá Evrópusambandinu sem hér fá ígildi laga án mikillar umræðu á Alþingi?
Íslenskur almenningur skynjar vel að það er eitthvað undarlegt um að vera í Vegas. Ekki er gáfulegt af stjórnmálamönnum að vanmeta áhrifin sem íslensk þjóð finnur nú á eigin skinni.
Við eigum að hafa góðar varnir og standa vörð um gjaldmiðilinn, hagsæld, lífsgæði, landamærin og íslenska þjóð. Það er ekki gert með því fyrirkomulagi sem nú er viðhaft af íslenskum stjórnvöldum sem hafa skapað þá verðbólgu nú sem brennir upp eigur almennings og dregur fjármuni frá þeim aðeins á einn stað. Það er ekkert jafnræði í því, síður en svo.
Ekki viljum við evruna með öllu atvinnuleysinu og framsali á fullveldi. Því verðum við enn og aftur að bregðast við sjálf og leiðrétta kinnroðalaust villurnar í eigin ranni.
Höfundur er oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ.