Evrópa vaknar vegna hælisleitenda

Umræða um stöðu hælisleitenda verður stöðugt háværari og fyrirferðarmeiri og margt sem knýr á um markvissari vinnubrögð stjórnvalda í þessum málaflokki. Þeir ráðherrar sem farið hafa með málefni hælisleitenda og landamæra Íslands hafa undanfarna áratugi undantekningarlítið komið úr röðum Sjálfstæðismanna sem væntanlega skýrir aðgerðaleysið. Ráðherrarnir hafa forðast að horfast í augu við vandann, að um alla Evrópu eru einstaklingar að sækja um hæli og eða vernd að tilefnislausu.

Því miður hefur umræða um þessa þróun verið lítil og ómálefnaleg og byggst á ónógum gögnum. Ráðherrar málaflokksins hafa fremur verið að elta umræðuna en að stýra stefnumótun sem byggist á staðreyndum. Margir sem hafa varað við þessari þróun eru sakaðir um öfgar og rangindi. Varla getur nokkur hugsandi maður lagst gegn því að herða reglur svo færri leggi upp í tilgangslausar hættuferðir með smyglurum og verja landið fyrir mögulegum glæpamönnum. Nú eru margir að vakna upp við vondan draum, að ekki eru allir hælisleitendur í leit að betra lífi. Að glæpahópar lifa því miður góðu lífi af því að selja „ferðir“ til betra lífs en skeyta ekki um hvað verður um fólkið.

Frakklandsforseti hefur síðustu daga leitt umræðu innan Evrópusambandsins um nauðsyn þess að verja betur ytri landamæri Schengen-svæðisins, m.a. vegna vaxandi ógnar en stutt er síðan hryðjuverk voru framin í Frakklandi og Austurríki. Meðal þess sem Macron hefur sagt er að nauðsynlegt sé herða landamæravörslu, eyða skilaboðum hryðjuverkamanna af internetinu fljótt, koma í veg fyrir misnotkun hælisleitendakerfisins o.fl. Undir orð Macrons hafa fleiri leiðtogar tekið, m.a. Rutte, forsætisráðherra Hollands, Kurz, kanslari Austurríkis, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Fréttastofa Reuters vitnar í Merkel: „Það er lífsnauðsynlegt að vita hverjir koma inn á Schengen-svæðið og hverjir fara þaðan.“ Þessi orð sýna að Merkel telur að eftirlitið hafi brugðist og ríkin hafi í raun ekki hugmynd um hverjir hafi fengið hæli. Fyrir marga eru þetta ekki ný tíðindi. Í Telegraph er vitnað í Macron: „Í öllum okkar löndum sjáum við misnotkun á réttinum til að leita hælis.“

Það er barnaskapur að detta í hug að eingöngu gott fólk í hættu leiti til Íslands. Hvers vegna ættu glæpamenn ekki að leita hingað líkt og til annarra landa? Því blasir við að herða þarf eftirlit á landamærum, taka þarf upp þá reglu að þeim sem áður hafa fengið dvalarleyfi innan Schengen verði þegar snúið til baka, að þeir sem sannarlega eiga rétt á að þeirra mál séu skoðuð fái niðurstöðu innan 2-4 mánuða, þeir sem fá hæli fái viðeigandi aðstoð, að skilaboðum um nýjar reglur sé komið vel á framfæri o.fl. Við Íslendingar getum ekki setið eftir þegar aðrir bregðast við.

Höfundur:  Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Suðvesturkjördæmis og varaformaður Miðflokksins.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 13. nóvember, 2020