Evrópusambandið hefur brugðist

Merkilegt er að til eru þeir sem vilja að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Já, þeir eru til sem telja að þessi dæmalausi klúðurklúbbur í Brussel sé best til þess fallinn að stýra helstu málum Íslendinga. Þrátt fyrir að öllum sem opna augun sé fullljóst að þangað er glapræði að stefna. Efnahagsbati Íslands eftir hrunið 2008 var jákvæður og góður en forsenda þess var sjálfstæð, fullvalda þjóð með eigin gjaldmiðil. Þessi króna sem mörgum er tamt að formæla og kenna um flest reyndist okkur betri en evran mörgum á meginlandinu. Leið Evrópusambandsins var að ganga svo nærri þeim ríkjum sem verst fóru út úr efnahagshruninu að það mun taka þau áratugi að vinna úr sínum málum og áfram eru þau undir það sett að hafa ekkert um það að segja hvernig gjaldmiðillinn „þeirra“, evran, hagar sér. En það er ekki nóg að Brusselvaldið hafi gert ríkjum innan ESB erfiðara fyrir, heldur hefur það sýnt sig að þegar stór mál koma upp sem kalla á snögg viðbrögð, stefnu og sýn þá verða svo miklar flækjur til að í raun veit enginn hvað gera skal. Nægir þar að nefna stefnu í málefnum flóttamanna og nú nýlega umræðu varðandi bóluefni. Það hefur verið sorglegt að fylgjast með því hvernig kerfið sem hannað var af stjórnmála- og embættismönnum ESB hefur ekki ráðið við verkefnið. Því skal engan undra að raddirnar um meiri sjálfsstjórn ríkja sambandsins hækka enda ekki við öðru að búast þegar íbúar landa sambandsins sjá hvernig komið er fyrir því.

Raddir um verulegar breytingar á sambandinu verða hærri og jafnvel heyrast nú fleiri raddir um að fylgja fordæmi Breta og hverfa úr sambandinu. Það versta sem þessi stöðugi tilflutningur valds frá einstökum ríkjum til Brussel hefur kallað fram er að meðal margra þjóða er þolinmæðin á þrotum. Til verður þá jarðvegur fyrir öfgaöfl til vinstri og hægri sem sjá tækifæri. Þessi öfl gera út á vonbrigði fólks með þróun mála í sínu landi eða sínu sveitarfélagi og benda þeim á að það eru aðrir valkostir. Þjóðir heims eiga að vinna saman að hagsmunum sem skipta alla miklu máli og Ísland hefur valið að taka þátt í margskonar samstarfi. Fáar þjóðir hafa jafn mikla þörf fyrir gott alþjóðlegt samtarf, alþjóðlegar reglur, samninga og sáttmála og Íslendingar sem háðir eru nýtingu náttúruauðlinda, framleiðslu og útflutningi á vörum og þjónustu en á sama tíma er það lykilatriði fyrir íslenska þjóð að ráða sér og sinni framtíð sjálf. Það verður aldrei gert með því að afhenda Brusselvaldinu lyklana að Íslandi. Við eigum að vera stolt þjóð og ánægð með það sem við gerum vel um leið og við eigum að vera tilbúin að hlusta og læra af öðrum.

Við getum verið stolt og eigum að vera stolt af okkar landi og þjóð.

 

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Suðvesturkjördæmis og þingflokksformaður Miðflokksins

gunnarbragi@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 19. apríl, 2021