Fækkun í Hafnarfirði

Fækkun íbúa í hverju sveitar­fé­lagi er graf­alvar­legt mál. Tekjur sveitar­fé­laga byggjast að mestu á út­svars­greiðslum og þegar fækkar í þeim hópi getur það haft al­var­legar af­leiðingar fyrir upp­gang og sam­keppnis­stöðu sveitar­fé­laga. Í Hafnar­firði fækkaði í­búum um 305 ein­stak­linga á síðast­liðnu ári, eða um 1 prósent. Hafnar­fjörður er eina sveitar­fé­lagið á höfuð­borgar­svæðinu þar sem fækkaði, utan reyndar Sel­tjarnar­ness þar sem fækkaði um níu ein­stak­linga. Í öllum hinum sveitar­fé­lögunum fjölgaði í­búum. Mest varð fjölgunin í Garða­bæ, 4,5 prósent, í Mos­fells­bæ 4,3 prósent, í Kópa­vogi 1,6 prósent og Reykja­vík 1,5 prósent.

Það hefur vafa­lítið haft mikil á­hrif á byggða­þróun í Hafnar­firði þegar upp kom bak­slag í flutningi á raf­línum Lands­nets sem lágu að hluta yfir fram­tíðar­byggingar­landi bæjarins, í sunnan­verðri Skarðs­hlíð og Hamra­nesi sunnan við Valla­hverfið í Hafnar­firði. Snemma við upp­haf kjör­tíma­bilsins benti Mið­flokkurinn á að grípa ætti til plans B, og breyta deili­skipu­lagi í hverfi sem kallað er Hellna­hraun 3 (þriðji á­fangi) og gera það að í­búða­hverfi en hverfið hafði verið skipu­lagt sem iðnaðar­hverfi.

Ekki hafði einni einustu lóð verið út­hlutað í því hverfi og allar breytingar því hand­hægar enda hverfið utan þynningar­svæðis ál­versins. Auk þess nýtur hverfið þeirra for­réttinda að þegar horft er í sólar­átt til suðurs eru engar línur að þvælast fyrir út­sýni að Sveiflu­hálsi og Reykja­nes­fjall­garðinum sem þar blasir við til suðurs. Þessa breytingu hefði verið hægt að gera strax 2018 en til­lagan hlaut ekki hljóm­grunn meiri­hlutans. Því tók við að segja má lóða­skortur fyrir fjöl­býli sem staðið hefur yfir í tvö ár og af­leiðingarnar eru fækkun bæjar­búa. Skemmst er frá því að segja að nú hefur raf­línan verið færð tíma­bundið frá Hamra­nes­hverfinu og syðsta hluta Skarðs­hlíðar­hverfis og því bjartari horfur fram undan í upp­byggingu fjöl­býlis­húsa sem og annarra eigna. Vonandi næst að snúa við þessari ó­heilla­þróun sem verið hefur í í­búa­fjölgun í bænum.

 

Höfundur:  Sigurður Þ. Ragnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Hafnarfirði

Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 29. janúar, 2021