Fjárlagafrumvarp gegn fjölskyldubílnum

Degi Eggertssyni og meirihlutanum í Reykjavíkurborg barst óvæntur liðsauki í slagnum við fjölskyldubílinn við framlagningu fjárlagafrumvarps í byrjun vikunnar. Kannski þarf slíkt ekki að koma á óvart núorðið, enda borgarstjórinn nýbúinn að plata fjármálaráðherra til að greiða 87,5% af uppbyggingarkostnaði borgarlínu úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Bifreiðaeigendur og ökumenn hafa löngum verið með skattpíndustu hópum landsins. Eflaust upphaflega með þeim rökum að það væri lúxus að hafa aðgang að bifreið og að þeir sem það hefðu réðu við heildarskattlagningu sem væri töluvert umfram það sem varið væri til veganna sem bílarnir óku um. Síðan hefur bætt í hvað þá þróun varðar og nú virðist steininn ætla að taka úr þegar kynnt eru áform um frekari skattlagningu, án þess að nein af eldri gjöldunum falli niður. Enn skal bætt í.

Er þetta sérstaklega áhugaverð nálgun þegar litið er til þess að fjármálaráðherrann er úr Sjálfstæðisflokknum sem á tyllidögum þykist vilja lækka skatta á fólk og fyrirtæki og gera mönnum auðveldara um vik að lifa sínu lífi. Það verður ekki annað sagt en að þetta gangi hressilega gegn þeim kosningaloforðum eins og reyndar flest annað í þessu fjárlagafrumvarpi. En ætli þessu verði ekki skellt á afsökunarvagninn vinsæla – að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki einn í ríkisstjórn heldur séu þar vinstrimenn og þeir skoðanalausu. En þá má jafnharðan spyrja sig að því hvenær Sjálfstæðisflokkurinn hætti að vernda stjórnarsamstarfið og fari að vernda fólkið í landinu gegn skattpíningu og lífsgæðaminnkandi stefnu vinstrisins.

En aftur að bílnum – það að eiga bifreið í dag er enginn lúxus, það er nauðsyn fyrir nær alla sem hér búa og þurfa að sækja vinnu, grunnþjónustu og afþreyingu utan hverfisins. Þó að meirihlutinn í borginni haldi stundum að allir búi á litla blettinum í 101 þá er ekki svo. Að komast hratt og örugglega á milli A og B án þess að sligast fjárhagslega skiptir venjulegt fólk mjög miklu máli. Venjulegt fólk á ekki kost á því að losa sig við bílinn því þá tapast á móti dýrmætur frítími með fjölskyldunni sem er þegar af skornum skammti þegar vinnu sleppir. Að geta átt bíl eykur frelsi fólks til að nýta tímann betur í það sem hugurinn girnist. Fyrir því ættu fleiri að berjast – á borði en ekki bara í orði þegar nálgast kosningar. En raunheimarofið leynist víða og virðist allsráðandi hjá ríkisstjórninni þegar kemur að hag fólksins í landinu

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 14. september, 2022.