Fjölbreytni Norðvesturkjördæmis og staða landbúnaðar

Að flatarmáli talið er Norðvesturkjördæmi stærsta kjördæmi landsins. Það er jafnframt eitt erfiðasta kjördæmið yfirferðar. Í kjördæminu er fjölbreytt atvinnulíf en jafnframt mörg vannýtt tækifæri til sjávar og sveita. Til þess að greiða fyrir þeim tækifærum þarf að efla uppbyggingu innviða. Átaks er þörf í samgöngum, raforku og heilbrigðisþjónustu. Sjálfsögð þjónusta eins og hitaveita, vatnsveita og fjarskipti þarf að vera í boði fyrir alla íbúa. Það er nauðsynlegt til þess að kjördæmið sé samkeppnishæft.

Höfuðatvinnugreinar þjóðarinnar, sjávarútvegur og landbúnaður, eiga sér langa og merka sögu í kjördæminu. Það væri nær að á okkar tímum minntumst við oftar þeirra greina enda eru flest okkar komin af sjómönnum og bændum. Sjávarútvegur hefur lengi staðið fyrir sínu en kom það af sjálfu sér? Þurfti ekki samstillt átak tækniþróunar og hagræðingar til? Í framtíðinni má gera ráð fyrir að mikil þörf verði fyrir heilnæm matvæli. Landbúnaður hérlendis mun því, ásamt sjávarútvegi, gegna lykilhlutverki. Til þess að svo verði þurfa bændur að eygja framtíð. Við megum ekki láta það gerast að sökum lélegrar afkomu í dag, flosni bændur upp af jörðum sínum. Sú hætta er hins vegar raunveruleg.

Afkomubrestur og Covid 19
Undanfarin misseri hefur orðið ljóst að afkomubrestur blasir við í landbúnaði. Aukinn innflutningur búvara hefur þrengt að mörkuðum. Covid 19 faraldurinn hefur aukið enn á þann vanda sem fyrir var Þannig hefur sala á kjöti dregist saman um rúm 9% síðastliðna þrjá mánuði.

Til viðbótar þessu hrannast nú upp kjötbirgðir bæði í búfénaði á fæti og í birgðageymslum sláturleyfishafa. Verði ekki gripið til ráðstafana til þess að koma í veg fyrir að meira kjöt komi inn á yfirfullan markað, mun það leiða til hruns í verði á kjöti til framleiðenda og lakari vöru til neytenda.

Á síðastliðnum tveimur árum hafa orðið breytingar á sölu mjólkur og mjólkurvara. Breytingin sést á ójafnvægi í sölu á mjólkurpróteini annarsvegar og mjólkurfitu hins vegar. Stærsti áhrifaþáttur þessa ójafnvægis er innflutningur á ostum.

Alvarlegar afleiðingar COVID 19 faraldursins, m.a. vegna hruns í komu ferðamanna, sóttvarnaaðgerða stjórnvalda, aukins innflutnings erlendra búvara og brotakenndrar tollaframkvæmdar og fyrirhugaðs uppboðs tollkvóta, kalla á aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Þegar staða íslenskra bænda er borin saman við stöðu bænda í nágrannalöndum Íslands, einkum Noregi og í aðildarríkjum Evrópusambandsins, sést að mjög mikill munur er til staðar. Í þessum löndum hafa stjórnvöld mun meiri heimildir til að grípa til aðgerða vegna tímabundins ójafnvægis á markaði. Þau hafa gripið til viðamikilla stuðningsaðgerða vegna Covid 19 faraldursins.

Í Noregi eru bændur og afurðasölufyrirtæki með undanþágur frá samkeppnislögum.

Í aðildarríkjum ESB hefur framkvæmdastjórn þess umfangsmiklar heimildir til að grípa til aðgerða sem gera bændum, sem falla undir sameiginlegu landbúnaðarstefnuna, kleift að auka samtarf sín á milli. Þær heimildir byggja á kafla Lissabonsáttmálans um landbúnaðarstefnu ESB. Auk þess hefur eftirfarandi stuðningur m.a. verið samþykktur vegna Covid 19:

  1. Bændum standa til boða fjárstyrkir vegna núverandi ástands allt að 100,000 evrur (16 miljónir króna).
  2. Bændum standa til boða hagstæð lán allt að 200,000 evrur ( 32 miljónir króna).
  3. Vegna ójafnvægis á mörkuðum með landbúnaðarvörur hefur verið innleidd tímabundin undanþága frá evrópskum samkeppnisreglum fyrir landbúnaðinn.

Í ljósi aðstæðna er nauðsynlegt að grípa til aðgerða sem virka. Tollaframkvæmd hér á landi þarf að taka til endurskoðunar. Öllu skiptir að tollaframkvæmd sé sanngjörn þannig að raunveruleg tollvernd sé til staðar í samræmi við ákvæði tollalaga og milliríkjasamninga.

Útgerð og fiskvinnsla
Sjávarútvegur hefur alla tíð verið umfangsmikill og mikilvægur í Norðvesturkjördæmi. Lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár og kemur þar margt til. Umræðan um veiðigjöld hefur oft verið á milli tannana á fólki, eðlilega. Ég hef ekki hitt þann útgerðamann sem ekki vill borga veiðigjald (auðlindagjald) en það þarf að vera sanngjarnt þannig að rekstur fyrirtækisins standi undir því. Ég hef frá upphafi þess tíma að veiðigjöld voru sett á, sagt að hluti veiðigjalda ætti að renna til heimabyggðar viðkomandi útgerðar. Þessu mun ég halda áfram tala fyrir. Útgerðir í kjördæminu er af ýmsum toga allt frá einyrkjaútgerð upp í togara. Fiskvinnsla er af öllum stærðum og gerðum. Mín sýn á farsælan sjávarútveg er, að sem flestar gerðir og stærðir útgerða og veiðafæra geti gengið með sjálfbærni og umhverfishyggju að leiðarljósi.

Raforka og afhendingaröryggi raforku er ekki í ásættanlegu ásigkomulagi eins og dæmin sanna. Það er öllum í fersku minni fyrir rúmu ári síðan þega rafmagn datt út á Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðurlandi í aftakaveðri þar sem raflínur og staurar brotnuðu niður og skammhlaup varð í tengivirkjum. Þarna kom í ljós að afhendingaröryggi er ekki eins og það þarf að vera á Íslandi þar sem allra veðra er von. Þó búið sé að lagfæra ýmislegt eru þó nokkur tengivirki óvarin fyrir veðri og þar með seltu. Stefna stjórnvalda til þess að auka afhendingaröryggi raforku þarf að vera markvissari.

Samgöngumál og heilbrigðisstefna
Samgöngumál er málaflokkur sem endalaust er hægt að fjalla um svo ekki sé meira sagt. Við erum mörgum áratugum á eftir öðrum þjóðum í samgöngumálum. þjóðvegur nr. 1 er undir alltof miklu álagi miðað við burðargetu. Þungaflutningar á þjóðvegum landsins hafa aukist mikið síðustu árin, ekki síst vegna þess að strandsiglingar voru lagðar af fyrir nokkrum árum, og þungaflutningabílar er orðnir stærri og þyngri en áður. Á Vesturlandi, í Dölum og á Norðurlandi vestra eru lengstu malarvegir á Íslandi. Í mörg ár hafa samgönguframkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum verið í gíslingu fárra aðila. Nú horfir loks til betri vegar á þeim slóðum. Stjórnvöld verða að leita allra leiða og hefja stórsókn svo uppbygging þjóðvega landsins sé samboðin kröfum nútímans.

Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni á í þeim vanda að erfitt er að manna læknastöður, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Hvatar sem gæti verið í formi skattahagræðis eða hagstæðra námslána gætu verið skynsamlegir til að fá heilbrigðisstarfsfólk til starfa á landsbyggðinni. Þá leið ætti að skoða.

Ég vil að lokum minnast á stefnu Miðflokksins fyrir kosningarnar 2017 sem gildir enn. Ísland allt þar sem landsbyggðin er höfð í huga. Sú stefna byggðist á því að leitast við að jafna alla innviðaþjónustu á landinu þannig að allir landsmenn hafi sem jafnast aðgengi að innviðaþjónustu. Hugsunin er þessi: jöfn tækifæri og aðgangur að þjónustu samfélagsins gagnast öllum. Hagsmunir landsbyggðarinnar og suðvesturhornsins hljóta að fara saman. Hvorugt getur án hins verið.

 

Sigurður Páll Jónsson
Þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Feyki þann 4. febrúar, 2021