Fjórðungssjúkrahúsið

Fjórðungssjúkrahúsið

 

Þrætur um Fjórðungssjúkrahúsið eru orðnar mjög gamlar, hreinlega man ég ekki eftir öðru máli sem er eldra. Við sem búum í nýja sveitarfélaginu höfum lengi barist fyrir nýju Fjórðungssjúkrahúsi sem yrði staðsett á stærsta þjónustusvæði á Austurlandi - Egilsstöðum.

Ég hef þurft að fara í lyfjameðferðir á tveggja mánaða fresti um nokkurt skeið. Ég þarf líftæknilyf og er Neskaupstaður eini staðurinn á Austurlandi sem getur séð um þær lyfjameðferðir sem ég þarf. Þegar ég flutti á Seyðisfjörð í vor og var að velta fyrir mér kostum og göllum á að flytja heim aftur, bjóst ég við að ég gæti fengið lyfjameðferð á Seyðisfirði eða í versta falli á Egilsstöðum. Mér var mjög brugðið þegar teymið á Landspítalanum suður í Reykjavík tjáði mér að ég hefði aðeins tvo kosti, annað hvort að keyra með fylgdarmanni á Neskaupstað sem er í 93 km fjarlægð frá heimili mínu eða fara í áætlunarflugi til Reykjavíkur.

Nýrrar bæjarstjórnar bíður það verkefni að krefjast og berjast fyrir þeim sjálfsögðu mannréttindum að geta komist í læknismeðferð í heimabyggð. Þessi mál hafa legið í þagnaryl um langt skeið en framkvæmdaleysi bæjaryfirvalda eru í besta falli ámælisverð.

Miðflokkurinn ætlar að koma upp bráðagreiningarstöð á Heilsugæslunni á Egilsstöðum. Leitað skuli jafnframt leiða til að fjármagna kaup á sneiðmyndatæki sem verði staðsett í heimabyggð.

Ef Miðflokkurinn fær umboð í þessum kosningum munum við krefjast þess að ríkið hefjist handa við að tryggja varanlega lausn og að íbúar í nýja sveitarfélaginu þurfi ekki að keyra yfir marga fjallvegi til að komast undir læknishendur. Þetta mál er spurning um líf okkar, það er ekki hægt að ætlast til að þeir sem hafa greinst með alvarlega sjúkdóma keyri allt árið í kring u.þ.b. 100 kílómetra leið til að fara í lyfjameðferðir.  Til samanburðar ók ég áður um 3 kílómetra frá heimili mínu í Vesturbæ Reykjavíkur til að komast í lyfjameðferðir.

Það er algjörlega ótækt að láta veikt fólk og aðstandendur fara yfir fjóra fjallvegi í öllum veðrum til að komast í lyfja- og læknismeðferð.

Við í Miðflokknum erum í lausnabransanum. Greinum vandamálin, finnum lausnirnar og FRAMKVÆMUM.

Lifið heil.

Örn Bergmann Jónsson

Seyðisfirði

Örn skipar 2. sætið á lista Miðflokksins í kosningum sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi.