Flótti frá umræðu við þinglok

Undanfarin ár hafa flokkarnir þrír í ríkisstjórn haft þann háttinn á að geyma erfiðustu og umdeildustu þingmálin til loka þings á hverju ári til þess að komast hjá allri umræðu um málin. Það er voðalega þægilegt að geta stillt stjórnarandstöðu og eigin þingmönnum upp við vegg yfirvofandi þingloka, þannig að ef einhver vill taka umræðuna í þingsal, gera breytingar, melta málin með gestum og á grundvelli umsagna sem berast utan úr samfélaginu og í raun ræða málin ítarlega í nefnd er sá hinn sami sakaður um tilraun til málþófs, að koma í veg fyrir þinglok samkvæmt starfsáætlun og halda öðrum frá fyrirframbókuðum sumarfríum sínum.

Með þessu renna ótrúlegustu mál í gegn án nokkurrar eða mikillar umræðu.

Til dæmis má nefna rammaáætlun um orkunýtingu sem kláraðist nú rétt fyrir þinglok. Ramminn tók töluverðum breytingum í blálok meðferðar nefndarinnar, í raun við afgreiðslu nefndarálits, án þess að nein raunveruleg umræða hefði átt sér stað um þær breytingar í nefndinni. Það sem verra er að breytingarnar voru gerðar eftir að þinglokasamningar höfðu verið gerðir en þeir takmörkuðu mjög svigrúm til umræðu í þingsal.

Annað dæmi er leigubílafrumvarpið, þar sem formaður Framsóknarflokksins ætlaði sér að umbylta regluverki leigubílaaksturs án nokkurrar umræðu í þingsal. Enginn gestur hafði heldur verið kallaður fyrir umhverfis- og samgöngunefnd fyrir áætluð þinglok til að ræða um málið, ekki einn. Engu skiptir í því ljósi að málið hafi áður verið rætt á vettvangi nefndar fyrri þings, enda nefndin þá skipuð allt öðru fólki en það sem nú var kosið til að fara með löggjafarvaldið.

Undarlegasti flótti ríkisstjórnarflokkanna frá sjálfum sér við þessi þinglok var þó þegar kom að þingsályktunartillögu um einföldun regluverks, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, mælti fyrir. Miðflokkurinn hafði lagt áherslu á það við þinglokasamninga að málið kæmist til atkvæða í þingsal enda mál sem allir ættu að geta fellt sig við – hver vill ekki einfalda regluverk? Jú, í ljós kom að Sjálfstæðisflokkurinn vill það ekki, heldur vísaði málinu frá. Það var reyndar gert án þess að láta Miðflokkinn, sem lagði málið fram, vita fyrir fram sem verður að teljast alveg ný gerð af dónaskap – en lengi skal manninn reyna. Flokkurinn lætur sér nú nægja einhverjar sýndaraðgerðir í þágu einföldunar regluverks þar sem löngu úreltar reglugerðir eru „afnumdar“ og lifir svo á sjálfshólinu á samfélagsmiðlum.

Það væri þannig óskandi að stjórnarflokkarnir og Alþingi legðu meira upp úr umræðu um málin, stór sem smá. Sýndu á spilin sín og fólkinu í landinu væri ljóst úr sal Alþingis hver væri sannfæring þingmanna – tekist væri á um hugmyndir og stefnur í málum sem varða líf okkar allra.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 21. júní, 2022.