Hækkun til loftslagsmála framar atvinnulausum

Ríkisstjórnin hefur lagt fram sína síðustu fjármálaáætlun og er hún hvorki fugl né fiskur. Áætlunin er ekki að blása þeim þúsundum Íslendinga sem eru atvinnulausir von í brjóst. Það er ekki verið að nota ríkisjármálin nægilega til þess að fjölga störfum í gegnum einkaframtakið. Hið mikla atvinnuleysi sem við glímum nú við er þjóðinni mjög dýrt svo ekki sé talað um andlega þáttinn. Í Bandaríkjunum er búið að setja 1,8 milljónir króna á hvern mann í aðgerðir til að fjölga störfum. Hér er búið að setja 540 þúsund á hvern Íslending. Við erum eftirbátar annarra þjóða í efnahagsaðgerðum vegna veirufaraldursins. Eina sem er skýrt í þessari fjármálaáætlun og greinilega mikilvægast í augum ríkisstjórnarinnar er stefnulaus hækkun á framlögum til loftslagsmála. Hækkun sem við vitum ekki hverju skilar. Hækkun sem ekki er árangursmæld. Hækkunin nemur einum milljarði á ári næstu árin. Nær væri að setja þessa peninga í að búa til störf í samstarfi við einkageirann. Hækkun til loftslagsmála getur ekki verið forgangsmál þegar þúsundir Íslendinga eru atvinnulausir. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa greinilega ekki staðið í þeim sporum á sínu æviskeiði að vera atvinnulausir.

Áætlunin er full af óraunhæfum væntingum, meðal annars er gert ráð fyrir að hingað komi tvær milljónir ferðamanna á næstu tveimur árum. Það er óraunhæft og sömuleiðis væntingar um að hér verði áfram lágt vaxtastig þegar verðbólga fer hækkandi. Hagvaxtarforsendur áætlunarinnar voru brostnar sama dag og hún var kynnt.

Innihaldslaus fjármálaáætlun

Fjármálaráðherra sagði í umræðunni á Alþingi um áætlunina að staðan væri að batna mjög hratt. Ráðherrann virðist í eigin heimi hvað það varðar. Það er fyrst og fremst einkaneyslan og íbúðafjárfestingin sem gerir stöðuna betri en menn gerðu ráð fyrir. Eyðsla almennings er lykillinn að því að þetta fór ekki eins illa og stefndi í. Heimilin eru að eyða sínum sparnaði. Það geta þau ekki endalaust. Það er ekki ríkisstjórninni að þakka að staðan er ekki eins slæm og spáð hafði verið. Fjármálaáætlunin er uppfull af innihaldslausum yfirlýsingum. Gefin eru vilyrði fyrir fjárfestingum sem hvergi eru sýnilegar. Ekki ein króna verður sett í nýjan þjóðarleikvang svo dæmi sé tekið. Mikilvæg innviðaverkefni bíða.

Kjarni málsins er þessi: Hér er ríkisstjórn sem er að fara inn í kosningar með þúsundir Íslendinga atvinnulausa og fjármálaáætlun sem leysir engan vanda. Þannig ríkisstjórn á ekki að styðja.

 

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins og situr í fjárlaganefnd Alþingis.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 27. mars, 2021