Hjarta Hallormsstaðaskógar

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir: „Öflugt mennta­kerfi er for­senda fram­fara og boðar rík­is­stjórn­in stór­sókn í mennta­mál­um. Skap­andi og gagn­rýn­in hugs­un, læsi og þátt­taka í lýðræðis­sam­fé­lagi verður áfram und­ir­staða ís­lenska skóla­kerf­is­ins. Lögð verður rík áhersla á að efla mennt­un í land­inu með hags­muni nem­enda og þjóðar­inn­ar allr­ar að leiðarljósi. Ný­sköp­un og þróun verður að efla á öll­um skóla­stig­um enda er mennt­un kjarn­inn í ný­sköp­un til framtíðar.“
 

Þessi stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar kom mér í hug þar sem við Alþing­is­menn heim­sækj­um kjör­dæm­in okk­ar í þess­ari viku og kynn­um okk­ur allt það öfl­uga starf sem heima­menn á hverj­um stað leggja til sam­fé­lags­ins. Í hjarta Hall­ormsstaðaskóg­ar er Hall­ormsstaðaskóli og þar fer fram nám í sjálf­bærni og sköp­un með áherslu á hrá­efni úr nærum­hverf­inu á sviði matar­fræði og tex­tíls.  Áhersla er lögð á sjálf­stæða verk­efna­vinnu nem­enda og að þeir til­einki sér skap­andi og gagn­rýna hugs­un þar sem fræði og fram­kvæmd eru tengd sam­an. Þessi stefna skól­ans rím­ar full­kom­lega við stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar.  En samt er það þannig að Hall­ormsstaðaskóli þarf nú að berj­ast fyr­ir til­veru sinni, eins und­ar­lega og það hljóm­ar, þrátt fyr­ir að skól­inn hafi svo sann­ar­lega hannað nám­skrá sína í takt við það sem best ger­ist á sviðum sjálf­bærni og sköp­un­ar í sam­vinnu við at­vinnu­lífið hring­inn í kring­um landið og jafn­vel út fyr­ir land­stein­ana. Segja má að Hall­ormsstaðaskóli sé bæði nauðsyn­leg­ur og kær­kom­inn ekki aðeins fyr­ir nem­end­ur á Aust­ur­landi held­ur á Íslandi öllu, marg­ir nem­end­ur koma frá öðrum lands- og heims­hlut­um, þeir sækja bæði það sem kalla má hefðbundið nám en einnig hafa nem­end­ur sótt svo­kölluð MasterClass-nám­skeið.

Alls staðar er verið að leggja áherslu á sjálf­bærni og ný­sköp­un hvert sem litið er í stefn­ur og sýn á Íslandi í dag.  Nefna má í þessu sam­bandi heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna, framtíðar­stefnu Íslands­stofu í út­flutn­ingi og stefnu­mót­un­ar­vinnu fyr­ir ferðaþjón­ustu, ís­lenska neyt­end­ur og al­mennt í allri stjórn­sýslu.  Ísland á að vera þekkt sem leiðandi land í sjálf­bærni.  Til að standa und­ir þess­um stefn­um þarf að vera mennt­un á sviði sjálf­bærni og sköp­un­ar og hana hef­ur Hall­ormsstaðaskóli svo sann­ar­lega.  Von­andi fær Hall­ormsstaðaskóli svig­rúm til að þróa og laga áfram nám að framtíðar­sýn og stefnu Íslands í sjálf­bærni.  Sókn­ar­tæki­fær­in eru víða og marg­ir hafa sýnt því áhuga að vera í sam­starfi við skól­ann.  Það er því ástæða til þess að bregðast við núna og ég hvet alla hagaðila til þess að sýna það í verki.

  

Höf­und­ur: Anna Kol­brún Árna­dótt­ir, þingmaður Miðflokksins

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 12. febrúar, 2020