Hrun persónuverndar og pólitíkur

Sú nýlunda sem nú ríður flestum til fulls, bæði í stjórnmálum og viðskiptum, gengur undir heitinu „siðferðislegt innbrot“ (e. ethical hacking). Um er að ræða tölvuinnbrot af margvíslegu tagi og stunda slíkt sjálfskipaðir dómarar sem ákvarða eigin mörk, rannsaka eigin mál, dæma í þeim sjálfir og ákvarða eigin refsingu sjálfir sem og engin er.

Páll heitinn Skúlason, fv. heimspekiprófessor, flutti fyrirlestra í Ríkisútvarpinu í október 1985 þar sem hann spurði hvort hægt væri að kenna gagnrýna hugsun. Þar segir hann m.a.: „Og hér er þeim sem vilja leggja upp úr skýrum og skilmerkilegum rökum hollt að minnast þess að röksemdir eru iðulega misnotaðar í því skyni að réttlæta afstöðu eða skoðun sem ekki er reist á neinum rökum. Í hversdagslífinu getum við fundið ótal heimildir um það hvernig menn beita rökum til þess að réttlæta málflutning á röngum forsendum eða til að breiða yfir hinar eiginlegu ástæður skoðana sinna, ákvarðana eða breytni.“

Við höfum sett okkur siðareglur, þ.e. lögin og reglurnar. Lög hvers lands standa ekki ein heldur er grunnstoðin sú að fólk fari að lögum sem í gildi eru hverju sinni. Geta ríki búið við hina fullkomnustu stjórnarskrá en hvaða gildi hefur slík stjórnarskrá sé ekki farið eftir henni og þeirri sem í gildi er? Það erum við, borgararnir, sem setjum gildin og siðferðið í samfélaginu, lögin.

Í dag eru innbrot tíðari á Íslandi en oftast áður. Sumir virðast samþykkja ákveðin innbrot, séu þau beint eða óbeint á vegum fréttamiðla eða ef afrakstur innbrots berst á borð þeirra. Dómstólar hafa jafnvel tekið undir slíkt innbrot náist í gögn sem gætu komið ríkisvaldinu vel. Má þar m.a. nefna innkaup á gögnum vegna skattalagabrota og brota gagnvart fólki af hverju tagi sem er. Hvaða skilaboð er verið að senda með slíkum innkaupum? Hugtakið „siðferðislegt innbrot“, ef svo má kalla, hefur tekið á sig víðtækari merkingu og enginn lengur óhultur fyrir slíku innbroti nema aðeins ef engin er myndavélin og engin nettengingin, hvorki í síma né tölvu. Hver setur viðmiðið, hvað má?

Árið 2001 var heimildamyndin „Lalli Johns“ frumsýnd. Þessi heimildamynd kvikmyndagerðarmannsins Þorfinns Guðnasonar er meistarastykki og kom almenningi á Íslandi i tengingu við líf og erfiðleika brotamanna. Nú hefur komið fram að Lalli hefur leitast við að bæta ráð sitt og það er vel. Oft „þurfti“ hann að brjótast inn en átti það til að skila því sem hann sá eftir að hafa tekið ófrjálsri hendi. Lalli er breyskur, veit betur. Er svo um netglæpamenn og aðra „innflutta“ glæpahópa dagsins í dag?

Í samfélaginu okkar er fullfrískt og ódrukkið fólk farið að hafa tekjur af innbrotum í tölvur og annan búnað almennings. Þær tekjur virðast m.a. berast frá fjölmiðlum sem stunda fjármögnun á slíkum brotum í því augnamiði að gæta að sínu „göfuga hlutverki“. Ríkisfjölmiðill virðist einnig hafa hag af slíkum innbrotum en þeir einu sem hafa lögformlega heimild til „innbrota“ er lögreglan gegn því að dómsúrskurður um slíkt liggi fyrir. Þetta ætti útvarpsstjóri RÚV að vita. Er rannsóknarblaðamennskan gengin langt út fyrir þjófabálk Jónsbókar?

Þetta á við um fjölmiðla og aðra sem taka sér meira vald en þeim ber. Rétt er þó að geta þess að bæði einstaklingar og fyrirtæki leitast við að stýra eigin áhættu og gangi ríkið, fjölmiðlar eða aðrir of langt eiga og mega bæði einstaklingar og fyrirtæki bregðast við til varnar. Það er ekkert óeðlilegt við það. Það hafa allir rétt á að verja sig, sínar skoðanir og sitt lífsviðurværi, þ.e. innan marka laganna. Ef einn rýfur lögin er ekki von á öðru en sá er þarf að verja sig beiti sömu meðölum. Hvert leiðir það okkur sem þjóð?

Á Íslandi ríkir e.k. borgarastríð. Það virðist rekið áfram á nokkrum vígstöðvum. Fyrirtæki eru í dag, beint eða óbeint, að stýra áhættu sinni með fjármögnun á áhrifavöldum, baráttu fyrir rándýrri og þunglamalegri borgarlínu og sum þeirra verjast árásum frá ríkinu vegna hlerana, eltingaleiks og undirmála af fjölbreyttu tagi. Meðan á þessu stendur veður glæpahópafjöldi hér uppi og „bakpokadrengir“ selja ungdómnum fíkniefni sem aldrei fyrr, veikja innviði samfélags okkar og draga úr samstöðu. Er það markmiðið?

Þessu ástandi svipar orðið mjög til þess sem tíðkaðist rétt fyrir hrun fjármálakerfisins. Grunnstoðir lögreglu virðast svipaðar og sjá mátti hjá Fjármálaeftirlitinu, sem var til húsa fyrir ofan þriðja flokks skyndibitastað fyrir hrun. Ráðherra heilbrigðismála ræðst að læknum en laun sérfræðilækna hafa rýrnað svo í roðinu að hætta er á að ákveðnar starfsstéttir leiti annað. Sami ráðherra lofar fötluðum en loforðum fylgja ekki fjármunir til sveitarfélaga! Þetta virðist allt á heljarþröm.

Núverandi ríkisstjórn skilar af sér afleitu búi þar sem óöld ríkir á flestum vígstöðvum stjórnmálanna, sem virðast vera fremur vera ímyndunarstjórnmál en raunveruleg stjórnmál. Komum okkur á jörðina og ráðumst að vandanum. Skerpum línurnar og komum á almennri velferð, lögum og reglu. Stöndum vörð um persónuvernd og ábyrg stjórnmál.

Lærum gagnrýna hugsun.

 

Sveinn Óskar Sigurðsson 

Höfundur er BA í heimspeki og hagfræði, MBA og MSc í fjármálum fyrirtækja og bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 31. maí, 2021