Hvassahraun – minningargrein

Kastljós staðfesti það sem nær allir vissu nú þegar, í þætti sínum 23. ágúst sl., að ekki verður hægt að hola niður nýjum flugvelli í Hvassahrauni. Ástæðan er augljóslega hætta á eldsumbrotum á svæðinu – en nú þegar hafa tvö eldgos geisað þar á tæpum tveimur árum, rétt hjá áætluðu flugvallarstæði. 

Allir átta sig á þessu nema ráðherra innviða, Sigurður Ingi Jóhannsson, því hann heldur áfram að láta framkvæma veðurrannsóknir á svæðinu í þeirri von að hægt verði að skutla flugvellinum þangað og losa Vatnsmýrina. Hann vill enn bíða „niðurstöðu vísindamanna“ um hvort Hvassahraun sé æskilegt flugvallarstæði. Raunheimarnir hafa hins vegar þegar fært ráðherranum niðurstöðuna – það er ekki hægt að byggja flugvöll við hliðina á eða í miðju eldgosi, alveg óháð veðurskilyrðum. Íslenskir skattgreiðendur fá hins vegar áfram að ausa fé í tilgangslausar rannsóknir svo ráðherrann geti ýtt því á undan sér að segja það sem blasir við. Flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýri.

Það þarf líka einhver að taka upp tólið og láta borgarstjórann og varadekkið hans vita af þessum eldsumbrotum og kippa þeim sömuleiðis til raunheima hvað varðar veru flugvallarins í Vatnsmýrinni og nauðsynlega uppbyggingu tengda honum.

Borgarstjórinn og varadekkin hans hafa reynt að draga úr rekstrarhæfi flugvallarins í Vatnsmýri með alls konar ráðum, bæði leynt og ljóst. Síðast voru það áform um uppbyggingu byggðar í Skerjafirðinum sem hefði dregið verulega úr rekstrarhæfi vallarins, svo að flugrekstri yrði á endanum hætt af tæknilegum orsökum.

Innviðaráðherrann stóð aldrei þessu vant í lappirnar þegar kom að því að stöðva þau áform, enda nýtt flugvallarstæði ekki í hendi. Hætt er þó við að fótfestan verði æði loftkennd þegar flokksbróðir ráðherrans sest í borgarstjórastólinn og fer að framfylgja stefnu Samfylkingarinnar í Reykjavík um að völlurinn skuli úr Vatnsmýrinni, hvað sem það kostar.

Þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar hefur verið lögð fram sex sinnum á Alþingi. Fyrst af Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi þingmanni og ráðherra Vinstri grænna, og síðan af Njáli Trausta Friðbertssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Tillöguna hefur alltaf dagað uppi.

Skynsamlegt væri að hleypa málinu loks til atkvæðagreiðslu í þingsal og kalla fram afstöðu þingmanna þessa lands til framtíðar innanlandsflugvallar sem þjónar öllu landinu á svo margan hátt. Það er ekki boðlegt að þingmenn geti setið á skoðun sinni mikið lengur – ekki þegar sótt er að vellinum úr öllum áttum og enginn annar staður boðlegur blasir við.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst, 2022.