Í ljósi sögunnar

Í Kastljósþætti fyrir jólin ákvað hæstvirtur forsætisráðherra að líkja stofnun Miðhálendisþjóðgarðs við stofnun Þingvallaþjóðgarðs á sínum tíma. Svelgdist undirritaðri á þeim stóru orðum og sitja þau þar enn sem fastast. Að hæstvirtur forsætisráðherra hafi ekki betri skilning á málinu er undirritaðri fyrirmunað að skilja.

Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar er eflaust ekki bundnari öðrum stað meira, en einmitt Þingvöllum við Öxará. Fljótlega eftir landnám, þegar byggð fór að þéttast og þörf fyrir lög og reglur jókst, var farið að huga að stað þar sem aðilar gætu komið saman, útkljáð deilur og sammælst um samfélagsreglur sem bæri að halda í heiðri. Stofnuð voru víðsvegar um landið svokölluð héraðsþing. Það kom svo að því að ákveðið var að stofna eitt allsherjarþing, Alþingi, sem markar upphaf þjóðríkis á Íslandi. Við ákvörðunartöku á staðsetningu Alþingis var horft til Þingvalla sökum staðsetningar þeirra við þéttbýlustu svæði landsins á þeim tíma og auðvelt aðgengi fyrir flesta að sækja þingið.

Alþingi var því stofnað á Þingvöllum árið 930 og kom þar saman allt fram til ársins 1798. Það var svo ákveðið 1000 árum seinna með lögum á Alþingi, eða árið 1930 að stofnaður yrði þjóðgarður um Þingvelli og nágrenni í ljósi þess mikla söguarfs Íslendinga sem svæðið hefur að geyma og bæri að varðveita sem og náttúrufegurð þess. En svo vísað sé í orð Jónasar frá Hriflu:

„Þingvellir eru einhver kunnasti staður á Íslandi, bæði sökum sögufrægðar og náttúrufegurðar. Þar hafa Íslendingar lengst af æfi þjóðarinnar átt höfuðstað sinn og hið eiginlega setur löggjafar og dómsvalds.“

Þjóðgarðurinn var upphaflega 37 ferkílómetrar en svo stækkaður árið 2004 með nýjum lögum og er í dag 228 ferkílómetrar eða um 0,22% af Íslandi. Ekki er hægt að ímynda sér annað en að mikil samstaða allra Íslendinga hafi verið um stofnun hans á sínum tíma og er Þingvallaþjóðgarður þar með sanni sagt þjóðgarður. Þó vissulega hafi verið tekist á um ákveðin útfærsluatriði á Alþingi.

Í ljósi sögunnar verður þjóðgarði allra Íslendinga á Þingvöllum ekki líkt við hugmyndir um stofnun Miðhálendisþjóðgarðs, því fer fjarri lagi.

 

Heiðbrá Ólafsdóttir
Höfundur er kúabóndi, lögfræðingur og meðlimur í stjórn Miðflokksins í Rangárþingi.

Greinin birtist á Sunnlenska.is þann 30. desember, 2020