Indælar skattahækkanir

Þegar flokkar sem liggja hvor á

sínum enda hins pólitíska litrófs taka upp á því að starfa saman verður þrautalending þeirra í millum oft að hreyfa ekki við erfiðum málum og allra síst þeim sem eru stefnumarkandi. Samstarfið í núverandi ríkisstjórn virðist þessum annmörkum háð, nema í þeim tilfellum þar sem annar aðilinn nær að smeygja inn sínum helstu draumum innpökkuðum í snotrar umbúðir.

Þrátt fyrir að þingmenn láti blekkjast, sem gerist reyndar í æ ríkari mæli, láta skattgreiðendur ekki gabba sig, að minnsta kosti ekki ítrekað.

Nýjasti og fallegasti draumurinn er sykurskatturinn, sem á að trompa alla aðra skatta sökum góðviljaðs tilgangs. Hækka skal skatta á sykraðar vörur, en þær vörur hefur það fólk sem minnst hefur úr að spila alltof oft þurft að grípa til. Rannsókn á áhrifum þeirrar skattlagningar er seinni tíma vandamál, heldur látið nægja að markmiðið sé að auka hollustu. Væri ekki skynsamlegra að einbeita sér að lækka skattlagningu á hollum vörum, svo fólk gæti veitt sér þær í ríkari mæli? Nei, skattadraumarnir innihalda ekki lækkanir og sér í lagi ef hækkanirnar eru fólkinu einungis til góðs.

Rósrauð ásýnd kolefnisgjaldsins nær engu minni hæðum en sykurskatturinn. Því þrátt fyrir að markmið með álagningu kolefnisgjalds sé í besta falli illa skilgreint er látið líta svo út að tilgangur þess sé eitthvað annað og fallegra en hin hefðbundna skattlagning ríkisvaldsins. Og boðað hefur verið meira af svo góðu. Og ekki tekur betra við þegar útgjaldahliðin er skoðuð. Væntanlegir fjölmiðlastyrkir ríkisstjórnarinnar eru dæmi um „góðviljaða“ útdeilingu á skattfé almennings. Þessir styrkir eru ekki bara vanhugsaðir heldur einnig vanfjármagnaðir í fjármálaáætlun á meðan RÚV situr eins og stríðalinn köttur í ríkisbúrinu.

Verkleysi ríkisstjórnarinnar í skattamálum, sem kemur til af samsetningu hennar, þar sem skattagleðin verður öllu öðru yfirsterkari lýsir sér einna best í tryggingargjaldinu. Þrátt fyrir stöðugt orðagjálfur um frekari lækkun gjaldsins til hagsbóta fyrir atvinnulífið, þá hefur ríkisstjórnin komist upp með að draga lappirnar og bið eftir efndum lengist stöðugt.

Á meðan á öllu þessu stendur, raungerast hugmyndir beggja arma ríkisstjórnarinnar um að þenja báknið út, þó aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Útblásið forsætisráðuneyti, Íslandsstofa, þjóðarsjóður og Þjóðgarðastofnun eru nýjustu dæmin sem ganga út á að stækka og fjölga ríkisstofnunum.

Nú eru uppi hugmyndir að kæfa alla andstöðu með hertum reglum um málfrelsi þingmanna. Þær hugmyndir má helst rekja til vinstri flokkanna og þeirra sem einhvern tíma hefði þurft að segja sér tvisvar að legðu slíkt til, en þó með dyggum stuðningi auðsveipra starfsmanna sem telja sig þurfa að leggjast á pólitískar árar.

 

Birtist í Morgunblaðinu 27. júní, 2019.