Íslandsbanki á undirverði

Forsætisráðherra sagði fyrir skömmu að skynsamlegt væri að hefja sölu Íslandsbanka og nota ávinninginn til innviðafjárfestinga. Fjármálaráðherra segir að undirbúningur á sölu bankans sé hafinn. Taka má undir að ekki er ástæða fyrir ríkissjóð að eiga tvo banka og binda þar fé sem hægt væri að nota í arðbærar fjárfestingar eins og í samgöngumál þar sem þörfin er brýn. Það má þó ekki gleyma því hvers vegna ríkið fékk bankana í fangið. Það skrifast alfarið á hversu illa var að sölu þeirra staðið af hálfu ríkisins. Afleiðingarnar þekkja allir. Þegar rætt er um að selja Íslandsbanka er því óhætt að segja að sporin hræði.

Hætta á að bankinn verði seldur á undirverði

Rekstrarumhverfi banka breytist hratt og í því efnahagsumhverfi sem við erum í í dag er samdóma álit þeirra sem best til þekkja að ekki er góður tími til að selja banka. Bókfært eigið fé Íslandsbanka var um áramótin 177,6 milljarðar. Ólíklegt er að söluverðið fyrir bankann verði hærra en á genginu 0,7. Það þýðir að fyrir hverjar þúsund krónur sem bankinn á, fást 700 krónur. Ætla má að seljandinn, ríkissjóður, fái því ekki hærra en 70% af eigin fé fyrir bankann. Ríkissjóður fái því ekki 177 milljarða fyrir bankann heldur 124 milljarða. Eigið fé bankans muni því ekki standast væntingar um söluandvirði hans, þar sem það yrði 53 milljörðum lægra. Það er auðvitað dapurlegt. Hætta er á að það verði varla nein biðröð kaupenda nema á lágu verði. Þetta þýðir í raun að betra væri fyrir eigandann að borga sér út eigið fé, þá myndi hann fá 100% af því. En banki verður auðvitað ekki lagður niður í einum grænum, það tæki mörg ár.

Ríkissjóður greiði sér aukinn arð en selji ekki bankann

Fyrir ríkissjóð þá er í raun hagstæðara að lækka eigið fé með arðgreiðslum heldur en að selja bankann undir bókfærðu verði. Nýta ber þau tækifæri sem eigandinn, ríkissjóður, hefur til að hámarka arðsemina án þess að selja bankann. Það er skjótvirkasta leiðin til að fjármagna innviðauppbyggingu. Það á ekki að færa kaupendum bankans þessi tækifæri á silfurfati. Einnig er skynsamlegt fyrir ríkissjóð að selja eignir úr bankanum og fá þannig einnig fé í innviðauppbyggingu. Má þar nefna tryggingafyrirtækið Alliance sem er í eigu Íslandsbanka, vel rekið og verðmæt eign. Íslandsbanka á ekki að selja á undirverði. 

 

Höfundur: Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi