Íslensk matvælaframleiðsla í fremstu röð

Mat­væla­fram­leiðsla þjóðar­inn­ar er ein af grunnstoðum þess að við byggj­um sjálf­bært og sjálf­stætt sam­fé­lag til framtíðar. Víða liggja vannýtt tæki­færi í land­búnaði á Íslandi en for­gangs­röðun stjórn­valda þarf að breyta. Þar sem sókn­ar­fær­in eru víða þarf að huga að allri virðiskeðju mat­væla­fram­leiðslunn­ar, allt frá frum­fram­leiðslu bænda að úr­vinnslu mat­væla á öll­um stig­um. Skapa þarf já­kvætt starfs­um­hverfi frum­kvöðla sem leita leiða til að full­nýta afurðir og búa til verðmæti úr áður ónýtt­um afurðum. Ódýr hrein orka, hreint vatn og loft leika lyk­il­hlut­verk í framtíðarmat­væla­fram­leiðslu á Íslandi.

Mik­il­vægi inn­lendr­ar mat­væla­fram­leiðslu hef­ur verið flest­um ljóst og enn frek­ar eft­ir að kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn skall á þjóðinni. Miðflokk­ur­inn lagði fram þings­álykt­un í októ­ber sl. sem kvað á um að fela for­sæt­is­ráðherra að hrinda í fram­kvæmd 24 aðgerðum um stór­efl­ingu inn­lendr­ar mat­væla­fram­leiðslu og ör­uggt og fyr­ir­sjá­an­legt rekstr­ar­um­hverfi land­búnaðar í sam­starfi við bænd­ur.

Meðal mark­miða til­lög­unn­ar er að stór­efla inn­lenda mat­væla­fram­leiðslu, tryggja mat­væla- og fæðuör­yggi, veita neyt­end­um um­hverf­i­s­væna, holla og nær­ing­ar­ríka fæðu, treysta af­komu bænda, auka sjálf­bærni og um­hverf­is­vernd, varðveita þekk­ingu, efla rann­sókn­ir og mennt­un í land­búnaði, auka skiln­ing á mik­il­vægi land­búnaðarfram­leiðslu og vernda land­gæði. Íslend­ing­ar vilja öfl­uga og inn­lenda mat­væla­fram­leiðslu sem þeir þekkja og geta treyst. Eft­ir­spurn eft­ir mat­væl­um úr nærum­hverf­inu hef­ur sjald­an verið meiri og eykst með auk­inni vitn­eskju neyt­and­ans um kosti inn­lendr­ar fram­leiðslu.

Hefðbundn­ar grein­ar í land­búnaði hafa verið og eru í vörn. Staða inn­lendra fram­leiðenda gagn­vart inn­fluttri vöru er erfið og snýr t.d. að tolla­mál­um og sam­keppn­is­mál­um, en líkt og aðrir inn­lend­ir fram­leiðend­ur á land­búnaður­inn mikið und­ir sam­starfi og vilja versl­un­ar­inn­ar. Þetta á við um all­ar stærstu grein­ar land­búnaðar­ins: sauðfjár­rækt, mjólk­ur­fram­leiðslu, nauta- og svína­kjöts­fram­leiðslu og garðyrkju. Þrátt fyr­ir áskor­an­ir eru sókn­ar­fær­in til staðar ef land­búnaðinum eru sköpuð skil­yrði til að starfa og þró­ast. Til að ný­sköp­un og þróun fái þrif­ist inn­an grein­ar­inn­ar þarf stöðug­leika og framtíðar­sýn. Eigi land­búnaður­inn að vera í stakk bú­inn til að laga sig að breyt­ing­um í tím­ans rás og geta nýtt tæki­færi sem víða liggja er nauðsyn­legt að stór­efla rann­sókn­ir, ný­sköp­un og frum­kvöðlastarf. Þetta mark­mið er enn brýnna nú en fyrr þar sem hætta er á að frjó­söm land­búnaðarsvæði í öðrum heims­hlut­um spill­ist að hluta vegna hlýn­un­ar og auk­ins vatns­skorts.

 

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi, annakolbrun@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 19. mars, 2021