Kjalarnes er Reykjavík

Dag­ur B. Eggerts­son og full­trú­ar í viðreista meiri­hlut­an­um virðast þó ekki átta sig á því. Þau krefja nú íbúa þessa hverf­is borg­ar­inn­ar um greiðslu upp á 125 þúsund krón­ur á hvert heim­ili vegna ljós­leiðara­væðing­ar. Hugsið ykk­ur að enn eru ekki öll heim­ili í Reykja­vík ljós­leiðara­tengd. Hefði ein­hverj­um dottið það í hug? Það eru sjálf­sögð mann­rétt­indi og nú­tímaþæg­indi að hafa aðgang að hröðu og ör­uggu neti eins og aðgang að raf­magni, heitu og köldu vatni. Þrátt fyr­ir ít­rekaðar ósk­ir íbúa á þessu svæði hef­ur hvorki gengið né rekið að fá ljós­leiðara fyrr en allt í einu nú. Til þess að upp­fylla þá sjálf­sögðu kröfu íbúa í dreif­býl­inu á Kjal­ar­nesi fór borg­ar­stjóri með betlistaf til fjar­skipta­sjóðs og óskaði eft­ir styrk í verk­efnið „Ísland ljóstengt“ sem var tíma­bundið landsátak fyr­ir dreifðari byggðir lands­ins en ekki höfuðborg­ar­svæðið. Reykja­vík­ur­borg gerði kostnaðaráætl­un sem hljóðaði upp á tæp­ar 113 millj­ón­ir króna fyr­ir rúm­lega 130 teng­istaði. Fjar­skipta­sjóður samþykkti á grunni kostnaðaráætl­un­ar­inn­ar styrk upp á tæp­ar 50 millj­ón­ir og hlut­ur Reykja­vík­ur því 63 millj­ón­ir. Farið var í útboð á verk­inu og þegar útboðsgögn voru opnuð var Míla með lægsta til­boð upp á 56 millj­ón­ir eða rétt rúm­lega helm­ing af kostnaðaráætl­un, sem er mjög ánægju­legt. Úthlut­un­ar­regl­ur fjar­skipta­sjóðs eru mjög skýr­ar. Fyrstu 500 þúsund­in af hverri teng­ingu ber sveit­ar­fé­lagið og þegar þeirri upp­hæð er náð kem­ur fjar­skipta­sjóður með fjár­magn.
 
Nú er staðan sú að til­boð Mílu er á pari við skyldu­fram­lag Reykja­vík­ur­borg­ar og er því afar hæpið að fjar­skipta­sjóður greiði sitt fram­lag inn í verk­efnið. Það er meira en grát­legt að hugsa til þess að þessi hóp­ur Reyk­vík­inga, sem beðið hef­ur eft­ir ljós­leiðara­teng­ingu í ár­araðir, sé svo hliðar­sett­ur í ráðhús­inu fyr­ir ein­ung­is 56 millj­ón­ir í öllu bruðlinu sem viðgengst þar. Í stað þess að ganga í verkið og biðja þessa aðila af­sök­un­ar á fram­kvæmda­leys­inu er þess kraf­ist að hvert heim­ili greiði 125 þúsund fyr­ir teng­ing­una. Það er skýrt brot á jafn­ræðis­reglu stjórn­sýslu­rétt­ar því ekki geng­ur að sum­ir borg­ar­bú­ar þurfi að greiða fyr­ir grunnþjón­ustu á meðan aðrir fá sömu þjón­ustu frítt. Nú þegar hef­ur til­laga mín um niður­fell­ingu gjalds­ins verið felld í borg­ar­stjórn en það má ekki gef­ast upp. Ég hvet þá aðila sem þetta mál snýr að til að leita allra leiða til að leita rétt­ar síns ef niður­fell­ing­in nær ekki fram að ganga. Kvört­un til umboðsmanns Alþing­is er t.d. ein leið sem hægt er að fara. Borg­ar­stjóri sem hik­ar ekki við að eyða fleiri hundruðum millj­óna í torg fyr­ir fram­an heim­ili sitt en sinn­ir ekki grunnþjón­ustu sem þess­ari er borg­ar­stjóri sjálfs sín en ekki annarra borg­ar­búa.
 

Höf­und­ur:  Vigdís Hauksdóttir, lög­fræðing­ur og borg­ar­full­trúi Miðflokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 16. október, 2020