Landsframleiðsla á Íslandi – Píratar hafna því að horfa til hagvaxtar á Íslandi

Píratar höfnuðu því nýlega að horfa til hagvaxtar. Af því tilefni er rétt að líta til hagvaxtar og þróunar vergrar landsframleiðslu (e. Gross Domestic Production, GDP). Í frétt Hagstofu Íslands frá því í febrúar sl. kom fram að landsframleiðslan á Íslandi hefði dregist saman um 6,6% árið 2020. Þar er fullyrt að þetta megi að mestu rekja til kórónuveirufaraldursins. Ferðaþjónusta dróst saman um 74,4% á árinu 2020. Þá er áætlað að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi numið 3,5% á árinu 2020 samanborið við 8,0% árið 2019. Þessar upplýsingar skipta okkur öll miklu.

Í fréttum RÚV nýlega var sagt að Píratar vildu hætta öllum „þessum endalausu hagvaxtarpælingum“ og horfa frekar á einhverja nýja mælikvarða þegar markmiðið er að mæla velgengni samfélagsins. Í sömu fréttaveitu var síðan bent á að Íslendingar menguðu mest á hvert mannsbarn í Evrópu.

Er ekki lengur hægt að gera þá kröfu að fulltrúar okkar í fréttamiðlum og á Alþingi geti lesið betur í tölur Eurostat? Ísland er um 103 þúsund ferkílómetrar að stærð, er næststærsta eyja Evrópu á eftir Bretlandi og sú átjánda stærsta í heimi. Eyjan Ísland fer stækkandi, eins og eldgosið í Geldingadölum ber glöggt vitni um. Það gerist reyndar með mengun sem kemur úr því rými sem einhverjir myndu telja sameign allra á jörðinni, þ.e. úr möttlinum, úr miðju jarðar. Franski rithöfundurinn Jules Verne kynnti fyrir mér ferðir þangað þegar ég var lítil stúlka. Á að halda því gegn Íslendingum að þeir séu ekki með samviskubit og kvíða yfir því að búa í fallegu og strjálbýlu landi? Þetta er fámenn og friðsöm þjóð? Hvar er þá Ástralía stödd í þessu samhengi, Namibía, Svalbarði og Jan Mayen?

Hagstofa Íslands tekur saman gögn um lífslíkur á Íslandi. Í frétt stofnunarinnar segir í júlí 2019 að lífslíkur á Íslandi séu með þeim mestu í Evrópu. Nú er spurning hvort þessi mælieining teljist einnig fráleit á meðal Pírata og ekki sé rétt að horfa til þessara staðreynda. Þegar litið er til ungbarnadauða af 1.000 lifandi fæddum hefur hann fallið úr sjö börnum á ári niður í um 1,8 að meðaltali sé litið til 10 ára tímabils frá 2008 til 2017. Hvergi í Evrópu er ungbarnadauði jafn fátíður og hér svo vitnað sé beint í frétt frá Hagstofu Íslands. Þetta eru staðreyndir sem snerta okkur öll.

Markmið Pírata er að horfa til loftslagsmála umfram allt og efna loforð um nýja stjórnarskrá. Nýjasta endurnýjun stjórnarskrárinnar er frá árinu 2013. Á hverju á fólk að nærast ef ætlunin er að hætta að horfa til hagvaxtar og framleiðni? Loftinu og nýrri stjórnarskrá? Þó svo að nýleg skýrsla um losun gróðurhúsalofttegunda sýni losun háa á hvern íbúa á Íslandi verður að horfa til þess að hér á landi er stór kolsvört eyðimörk á hálendi þessarar fögru eldfjallaeyju. Það er ekki auðvelt að græða það svæði allt upp á milli eldgosa. Hér gýs að meðaltali á fimm ára fresti. Hvers vegna fer fólk ekki oftar út á land og gróðursetur fleiri tré, eins og ég? Það er bæði hollt, gefandi og gott.

Það er sjálfsagt að auka velsæld á Íslandi en eru það Íslendingar sem menga mest allra á jörðinni? Þaðan sem ég kem var það óstjórn í stjórnmálum sem olli mestu tjóni. Það leiddi af sér styrjaldir. Mér er alveg ómögulegt að skilja að hér sé verið að kvarta og skapa ófrið um umhverfismál í þessu fallega landi. Auðvitað mætti SORPA standa sig betur en þar hafa Píratar þó eitthvað um málið að segja. Þeir eru í meirihluta í Reykjavíkurborg ásamt nokkrum öðrum.

Það að Píratar ætli að stefna að því að henda hitamælum hagkerfisins getur tæpast talið skynsamlegt. Þeir ætla að leggja áherslu á loftslagið og hlýnun jarðar þar sem hitamælar skipta öllu máli. Þetta getur ekki farið saman. Við þurfum hagvöxt ef greiða á upp skuldir og upp í mengunarkvóta sem eru nú verðmetnir á hærra gengi en áður. Íslendingar eiga enn orku og auðlindir sem þeir eru öfundaðir af. Fjölmörg ríki Evrópu hafa þegar brennt upp sínar lindir í báða enda í gegnum styrjaldir og stríðsrekstur.

Hvers vegna eru Píratar að reyna að ræna umræðunni? Mér skilst að í leikriti norska leikskáldsins Thorbjørns Egners, Kardimommubænum, hafi Soffíu frænku einmitt verið rænt með það í huga að koma ræningjunum sjálfum til hjálpar vegna þeirra eigin sóðaskapar heima fyrir. Í fagurbókmenntum og listum má oft finna svarið við snúnum spurningum.

 

Danith Chan skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík suður fyrir komandi alþingiskosningar.

danithchan78@gmail.com

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 25. ágúst, 2021