Launhækkun til sviðsstjóra Reykjanesbæjar

Ósannindi formanns bæjarráðs

Á síðasta bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar voru bornar upp á mig rangar sakir af forseta bæjarráðs.  Málið varðar launahækkun til sviðsstjóra upp á 122 þúsund á mánuði.  Mál sem hefur verið gagnrýnt harðlega af bæjarfulltrúa Miðflokksins, verkalýsðhreyfingunni o.fl.  Skal engan unda.  Þessar launahækkanir eru alls ekki í takt við það sem er að gerast í samfélaginu og það veit meirihluti; Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar.

Á fundi bæjarstjórnar var sagt að ég hafi samþykkt þessar hækkanir í bæjarráði.  Það eru hrein ósannindi og það er staðfest í fundagerð.  Undir liðnum kjaramál var formanni bæjarráðs falið að vinna málið áfram í tengslum við almenna kjarasamninga.  Það var mín afstaða að ekki yrði farið fram úr lífskjarasamningum.  Síðan er greinilegt að formaður bæjarráðs vann málið áfram án aðkomu annarra verkalýðsfélaga og á skjön við lífskjarasamninginn.  á bæjarstjórnarfundi samþykkti ég fundargerð bæjarráðs, þar var kjaramálinu frestað.  Ég hef því aldrei skrifað undir hækkun til sviðsstjóra.

Bæjarfulltrúi Miðflokksins, Margrét Þórarinsdóttir flutti breytingartillögu við fjárhagsáætlunina um að afturkalla launahækkun til sviðsstjóra.  Meirihlutinn; Framsókn, Samfylking og Bein leið felldu tillöguna.

Við þetta má síðan bæta að ég bókaði á bæjarstjórnarfundi furðu mína á miklum kostnaðarhækkunum til stjórnsýslusviðs bæjarins.

Ég vísa hreinum ósannindum meirihlutans í minn garð til föðurhúsanna og vænti þess að ég verði beðinn afsöunar af formanni bæjarráðs.

Góðar stundir.

 

Höfundur:  Gunnar Felix Rúnarsson, varabæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ

Greinin birtist í Víkurfréttum þann 12. desember, 2019