Lausnargjaldið

Lausnargjaldið

 

Miðflokkurinn leiddi umræðu á Alþingi um málefni svokallaðrar borgarlínu á síðustu dögum þingsins. Verkefnið mun kosta tugi og líklega yfir hundrað milljarða og auðvitað langt í frá að heildarkostnaður sé í augsýn. Framkvæmdin er lítt útfærð og viðurkennt er að engin rekstraráætlun liggur fyrir auk þess sem þrengja mun enn frekar að annarri umferð.

Framkvæmdastopp
Fyrir áratug síðan var ákveðið að ríkið setti milljarð króna á ári til að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þá var hlutur almenningssamgangna 4% og nú tæpum 10 árum síðar er hlutur þeirra óbreyttur. Tilraunin mistókst. Á meðan á tilrauninni stóð var stórlega dregið úr framkvæmdum á svæðinu með alkunnum afleiðingum. Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur situr enn við sinn keip, borgarbúar skulu með góðu eða illu ferðast um í almenningsvögnum. Götum er lokað eða þær þrengdar og umferðareyjur malarfylltar. Vegfarendur mega bíða í löngum bílalestum og umferðarteppum dag hvern. Langþreyttir vegfarendur og nágrannasveitarfélög Reykjavíkur hafa beðið óþreyjufull eftir lagfæringum á helstu stofnbrautum.

Aðframkomnir
Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er gerður við þessar aðstæður. Líkast til hefur framkvæmdaleysið dregið svo mátt úr mönnum að þeir hafi næstum verið tilbúnir að samþykkja hvaðeina í viðleitni til ná fram brýnum umbótum á stofnbrautum og byggingu mislægra gatnamóta. Þar er jafnvel minnst á Sundabraut, framkvæmd sem sami meirihluti hefur verið iðinn við að tefja og gera sífellt torsóttari og dýrari. En böggull fylgir skammrifi, tilraunina með almenningssamgöngur á að flytja yfir á nýjar víddir – borgarlínu.

Lausnargjaldið
Ríkið mun greiða stærsta hlutann og þá á stór hluti að koma úr vasa vegfarenda, sem voga sér að nota fjölskyldubílinn. Sem hluta af greiðslu hyggst ríkið leggja til Keldnalandið, sem er eitt verðmætasta byggingarland á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel hluta af söluandvirði Íslandsbanka.

Gegn þessu talaði Miðflokkurinn og tókst að ná fram ákveðnum lagfæringum við frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags um framkvæmdirnar. Okkur tókst líka að kalla fram viðurkenningu á mikilvægi Sundabrautar.

Í efnahagsþrengingunum framundan er mikilvægt að gætt sé aðhalds í útgjöldum hins opinbera. Að ráðast í eina stærstu framkvæmd hérlendis um árabil, byggt á lítt útfærðum framkvæmdaáætlunum og án rekstraráætlunar er verulega óábyrgt. Rekstur almenningssamgangna má ekki vera myllusteinn um háls kynslóða framtíðarinnar með óhóflegri skattlagningu.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi
og á sæti í Umhverfis- og samgöngunefnd.
kgauti@althingi.is

Greinin birtist örlítið stitt í Morgnublaðinu 4.7.2020