Leikskólabörn og pólitísk óheilindi

Borgarstjórinn í Reykjavík, sem Framsóknarflokkurinn tryggði aftur í sinn stól að loknum síðustu kosningum, lofaði yngstu borgarbúunum leikskólaplássi við 12 mánaða aldur í aðdraganda kosninga. Þetta hefur hann reyndar gert áður en aldrei staðið við loforðið. Kjósendur áttuðu sig á því og kusu breytingar í borginni – nokkuð sem Framsóknarflokkurinn lofaði að gera og uppskar mikinn kosningasigur. En gamli vinnustaður nýs oddvita Framsóknarflokksins var varla búinn að lesa lokatölur kosninganna þegar oddvitinn snerist á hæli, gaf skít í boðaðar breytingar og gerði Dag B. Eggertsson aftur að borgarstjóra og sjálfan sig að enn einu varadekki þess manns.

En nú er svo komið að foreldrar barna í Reykjavík eru komnir með nóg. Það dugði ekki að tryggja öðrum flokkum kosningasigur, fólk sat aftur uppi með Samfylkinguna og Dag og því eru foreldrarnir mættir í Ráðhúsið að mótmæla stöðunni.

Þessar mæður og feður komast ekki til vinnu því börnin þeirra fá ekki daggæsluna sem þau eiga rétt á hjá borginni. Þessir foreldrar komast ekki til þess að skapa verðmæti fyrir íslenskt samfélag, leggja til samneyslunnar og haga sínum degi eins og þau helst kjósa með tilliti til þess hvað þau telja best fyrir sína fjölskyldu. Aftur er vegið að frelsi fólks hér á landi, í boði Framsóknarflokks og gamla meirihlutans. Jafnréttið á einnig undir högg að sækja vegna þessarar stöðu en í mörgum tilfellum eru mæður heima með börnin löngu eftir að fæðingarorlofi sleppir með augljósum áhrifum á þátttöku þeirra í atvinnulífinu. Eru þetta kannski breytingarnar sem Framsóknarflokkurinn boðaði – afturför í jafnréttismálum?

Einar Þorsteinsson virðist týndur í nýju starfi því aðspurður á mótmælum foreldranna hvort staðan væri boðleg, sagði hann svo vissulega ekki vera – en hafði engar lausnir, enga breytingatillögu eða til dæmis nægan dug til að setja saman annan meirihluta sem væri líklegur til verka

Borgarstjórinn hafði það að segja við örvæntingarfulla foreldrana að það væri „gaman að sjá fólk í Ráðhúsinu“ – er til maður í minni tengslum við raunveruleika venjulegs fólks?

Svo skal ekki gleyma því að Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, hafði þetta að segja um leikskólamálin í aðdraganda kosninganna á Twitter, af sinni alkunnu hógværð: „Ok, fyndið. Var Sjálfstæðisflokkurinn virkilega að kynna það sem kosningaáherslu sína að bjóða börnum frá 12 mánaða aldri leikskólapláss? Þegar það er nýbúið að tilkynna að með þeim plássum sem klárast á árinu, þá verði öllum börnum boðið pláss frá 12 mánaða aldri nú í haust? … Vá, segi ég nú bara. Þetta er einhvers konar met í óheiðarleika og tækifærismennsku.“

Það blasir hins vegar við hver á metið og það er á kostnað borgarbúa.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 17. ágúst, 2022.