Leyndarhyggja og laumuspil

Okkur Íslendingum hefur gengið nokkuð illa að vinna úr ýmsum eftirmálum bankahrunsins sem varð hér fyrir rétt rúmum áratug. All erfitt hefur reynst að safna saman upplýsingum um margt það sem þá gerðist. Núverandi stjórnvöld hafa gengið nokkuð ákveðið fram í viðleitni sinni til að fela mál í leyndarhjúp. Sum gögn hafa verið læst inni til áratuga önnur er erfitt að nálgast og ýmist borið við bankaleynd eins og í tilfelli Eignarhaldsfélags Seðlabankans og Lindarhvols, persónuvernd líkt og með sölu fullnustueigna Íbúðalánasjóðs (nú HMS), ellegar að um viðskiptaleyndarmál sé að ræða eins og um málefni Landsvirkjunar.

Ein af fremstu skyldum Alþingis og þar með alþingismanna er að sinna eftirlitsskyldu með framkvæmdavaldinu og stofnunum ríkisins. Þingmenn hafa einkum þrjár leiðir til að vekja athygli á málum og/eða kalla eftir upplýsingum um þau. Það er með fyrirspurnum, með því að biðja um sérstaka umræðu um tiltekið mál eða vekja máls á þeim undir dagskrárliðnum ,,Störf þingsins.“ Í nokkur ár hefur pistilritari gert nokkrar tilraunir til að fá fram upplýsingar um tiltekin mál. Það hefur gengið misilla og mjög hægt. Mig langar hér að greina frá fyrirspurnum um eitt ákveðið efni – Sölu fullnustueigna Íbúðalánasjóðs.

Á árunum eftir hrun misstu þúsundir fjölskyldna húsnæði sitt í hendur fjármálastofnana. Þær eignir voru síðar seldar ýmist ein og ein eða í ,,kippum“. Fjöldi einstaklinga sem missti húsnæði sitt á þessum tíma hefur verið í sambandi við þingmenn þar á meðal þann sem ritar þennan pistil í von um að fá að vita hvað varð um eignir þeirra. Einnig í von um að geta aftur eignast þak yfir höfuðið. Engin frásögn sem pistilritari hefur heyrt frá þessum aðilum lætur mann ósnortinn.

Ég sendi inn fyrstu fyrirspurn mína varðandi þetta mál snemma árs 2018. Ég fékk svar við hluta fyrirspurnarinnar rétt um ári síðar en vinnureglan er sú að fyrirspurnum þingmanna sé svarað innan hálfs mánaðar eða að beðið sé um frest til svara. Í þessu hlutasvari kom fram að um 4.600 íbúðir höfðu verið teknar af fólki af Íbúðalánasjóði á árunum 2010 til ársloka 2017. Fyrir þær höfðu verið greiddar um 57 milljarðar króna. Þegar ég óskaði frekari upplýsinga þ.e. hverjir hefðu keypt var borið við persónuverndarsjónarmiðum. Boðið var upp á að svar yrði send Alþingi og þinginu látið eftir hvort það yrði birt. Eftir að hafa innt bæði félags- og barnamálaráðherra svo og dómsmálaráðherra eftir upplýsingum um kaupendur sem eru NB opinberar upplýsingar og liggja fyrir í þinglýsingabókum alls fimm sinnum á árunum 2018 og 2019 án þess að fá svör leitaði ég liðsinnis forseta Alþingis og forsætisnefndar. Rétt er hér að þakka viðbrögð forseta Alþingis og starfsmanna þess við þeirri bón.

Í framhaldi af því var unnið minnisblað af lögfræðisviði þingsins þar sem fram kemur að persónuverndarlög gilda ekki um Alþingi. Þar kemur einnig fram að Alþingi ritstýrir ekki svörum ráðherra við fyrirspurnum, svörin eru birt í Alþingistíðindum um leið og þau berast skv. þingskaparlögum. Að síðustu kemur fram í minnisblaðinu að svör þeirra tveggja ráðherra sem um ræðir við fyrirspurnum mínum standast hvorki þingskaparlög né lög um ráðherraábyrgð.

Svo langt var gengið að ráðherrarnir skirrðust ekki við að brjóta þingskaparlög og fara á svig við ráðherraábyrgð til að viðhalda þöggun í málinu en þetta hefur félags- og barnamálaráðherra nú gert undanfarin þrjú ár. Allt virðist lagt að veði til að koma í veg fyrir að opinberað verði hverjir gerðu sér veislu úr ógæfu annarra á árunum eftir hrun.

Með rök minnisblaðs lögfræðisviðs Alþingis í farteskinu lagði ég fyrirspurn mína fram í sjöunda sinn nú í byrjun febrúar. Svar hefur ekki borist en þegar ýtt var eftir málinu nýlega var skyndilega beðið um ótímabundinn frest til að svara fyrirspurninni sem nú varðar upplýsingar um sölu fullnustueigna Íbúðalánasjóðs (nú HBS) til síðustu áramóta. Enn er beðið svars og í ljósi reynslunnar virðist félags- og barnamálaráðherra ætla að hanga á svarinu til þingloka en þá dettur fyrirspurnin uppfyrir og þarf að endurtaka hana á næsta þingi. Hvað er þá til ráða? Einfalda svarið er að hægt er að bera fram vantraust á ráðherra sem brýtur lög um ráðherraábyrgð. Hætt er við að meirihlutinn að baki viðkomandi slái um hann skjaldborg og felli vantraustið. Færi svo tæki sami meirihluti ábyrgð á lögbrotum viðkomandi ráðherra. Það yrði athyglisverð niðurstaða. Annar möguleiki er að stefna ráðherrunum fyrir dóm til að fá upplýsingarnar fram. Eitt er víst að einskis verður látið ófreistað til að fá niðurstöðu í þessu máli.

 

Höfundur:  Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 21. apríl, 2020